Erfitt að regluvæða ólíkt mat á málum

Katrín Jakobsdóttir og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Samsett mynd

Arndís Anna Kristínardóttir, þingmaður Pírata, spurði Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í sérstökum umræðum í þinginu í gær hvað hún hyggist gera í ljósi samráðsleysis Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra, við reglugerðarbreytingu á vopnavarnarlögum þar sem lögreglu var veitt heimild til breytingu rafvopna.  

Umboðsmaður alþingis sagði á dögunum í áliti sínu að Jón hafi farið á svig við góða stjórnsýsluhætti með því að taka málið ekki upp á ríkisstjórnarfundi.  

Arndís Anna sagði í pontu að persónuleg eða pólitísk afstaða Jóns væri í forgrunni reglugerðarbreytingar á vopnalögunum. Spurði hún Katrínu Jakobsdóttur hvað hún hyggist gera í kjölfar álits umboðsmanns og hvort meint brot við stjórnarskrá og á lögum um samráð um ríkisstjórn ætti að verða óátalið.

Samráð tryggi ekki samþykki allra 

Forsætisráðherra sagði að það væri skýrt í lögum það væri mat hvers ráðherra hvenær mál þættu mikilvæg með tilliti til þess hvort bera ætti þau upp í ríkisstjórn. Í forgrunni væri ólíkt mat hennar og Jóns um mikilvægi málsins. 

Katrín sagði einnig að hún væri sammála Umboðsmanni Alþingis um að málið ætti að hafa verið tekið upp í ríkisstjórn sem síðar var gert. Samráðið hefði hins vegar engan veginn sjálfkrafa í för með sér að allir væru sammála í ríkisstjórn. 

Arndís Anna og Þórunn Sveinbjarnardóttir í þingsal.
Arndís Anna og Þórunn Sveinbjarnardóttir í þingsal. Eggert Jóhannesson

Þá sagði hún að ráðherranefndir hefðu nokkuð góða yfirsýn yfir helstu mál ríkisstjórnar og nokkuð góð yfirsýn væri til staðar. Hins vegar takmarkaði það valdheimildir forsætisráðherra að það væri mat hvers ráðherra hvort bera skuli mál upp í ríkisstjórn eða ekki.

Vinna að siðareglum 

Þá sagði Katrín að hún teldi vandkvæðum bundið að skrifa mat á mikilvægi mála í verklagsreglur og hvernig væri hægt að þétta samráðið en þó væri verið að vinna að siðareglum ráðherra. Sagði hún að pólitískt væri ólíkt mat á sumum málum innan ríkisstjórnarinnar.

Hún geti ekki séð hvernig það að ráðherrar ræði sýn sína sem gæti verið ólík eftir flokkum að það hefði áhrif á traust almennings.

mbl.is

Bloggað um fréttina