Minnka við sig vinnu eða skiptast á að mæta

Eiríkur og sonur hans voru mættir á pallana í Ráðhúsinu …
Eiríkur og sonur hans voru mættir á pallana í Ráðhúsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiríkur Rafn Stefánsson gerir ráð fyrir að þurfa að minnka við sig vinnu í haust ef fer sem horfir að sonur hans fái ekki dagvistun. Þeir feðgar voru mættir í Ráðhúsið í dag ásamt fjölda annarra foreldra og barna til að vekja athygli á slæmri stöðu í leikskólamálum í borginni.

Sótt hefur verið um pláss fyrir drenginn á bæði borgar- og einkareknum leikskólum og útlitið er ekki gott ef horft er á biðlistana.

„Þegar þetta er orðið svona svart þá erum við líka farin að kíkja á dagforeldrakerfið en það lítur heldur ekki vel út í kringum mann,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is.

Sonur hans var hinn kátasti og bablaði í gríð og erg yfir ræðum og andsvörum borgarfulltrúanna. Hvort það flokkast sem frammíköll er óvíst, en drengurinn kærði sig að minnsta kosti kollóttan um fyrirmæli forseta borgarstjórnar til áheyrenda um að hafa hljóð meðan á fundinum stæði.

Þarf líklega að minnka við sig vinnu í haust

„Ég klára fæðingarlof í maí og blessunarlega bý ég svo vel að ég fæ sumarfrí sem kennari. Við getum brúað bilið til byrjun sumars og það verður gott að geta verið með drengnum fram á haust en svo veit maður ekki hvað gerist,“ segir Eiríkur, en sonur hans verður 16 mánaða í haust og því á mörkum þess að vera nógu gamall til að fá boð um leikskólavist í haust.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, greindi frá því á fundinum í dag að vonir stæðu til að í september væru flest börn í Reykjavík, 15 mánaða og eldri, komin með leikskólavist á annaðhvort borgar- eða einkareknum leikskólum. Hún tók þó fram að óvissan væri töluverð og ákveðnir varnaglar voru settir.

Vonarneisti

Eiríkur segir þessar tölur hafa kveikt ákveðinn vonarneista þó hann sé enn raunsær.

„Maður verður bara að treysta því að þetta fólk sé að vinna að heilindum og eitthvað gott komi út úr því á endanum. Þau mega vera með markmið og reyna að standa við þau.“

Hann gerir þó ráð fyrir því að ræða við sína yfirmenn í vor og greina frá því að líklega þurfi hann að minnka við sig vinnu í haust vegna þess að sonur hans fái ekki dagvistun.

„Við erum ekki alveg komin þangað. Það þarf líklega að gera það. Maður er bara númer í röðinni og ég vorkenni öllum sem eru í þessari stöðu.“

Útilokað að fá pláss á leikskóla í hverfinu 

Sonur Kötlu Marínar Berndsen verður 19 mánaða í september, en eins og staðan er í dag er útilokað að hann komist á leikskóla í sínu hverfi. Á biðlistum á leikskólum í Vesturbænum, þar sem þau búa er hann á bilinu 50 og 100 í röðinni, en Katla bindur þó vonir við að hann komist inn á einkarekinn leikskóla í haust.

Hún og maðurinn hennar vinna bæði í hverfinu og dóttir þeirra er á leikskóla þar. Það er því mjög óhentugt fyrir þau að þurfa að fara með soninn á leikskóla í öðru hverfi.

Dóttirin byrjaði á leikskóla utan hverfis en fékk flutning á leikskóla í Vesturbænum rúmlega tveggja ára.

„Það hræðir mann ef hann kemst ekki inn núna í haust, þá kemst hann inn næsta haust, að verða þriggja ára, sem er bara rugl,“ segir Katla.

Hann vinnur á daginn, hún kvöld og helgar

Þar sem fæðingarorlofi foreldranna er lokið skiptast þau á að vinna til að láta hlutina ganga upp. Hún vinnur á kvöldin og um helgar og hann á daginn. Þá nýtir hún sumarfríið sitt meðfram því, þar sem hún er ekki í fullri vinnu, en það þýðir að hún á ekkert frí í sumar.

„Við gerum þetta svona í hálft ár, vonandi ekki meira. Við erum heppin að geta gert þetta, en þá hitti ég auðvitað ekki þriggja ára barnið mitt. Það eru alls konar ókostir við að gera þetta svona,“ segir hún. Með þessu fyrirkomulagi ná þau að halda nokkurn veginn fullum tekjum en álagið er mikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert