Reiða sig á siðferðiskennd nemenda

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að ekki hafi …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að ekki hafi komið til tals að banna próf í tölvum vegna aukinnar notkunar á gervigreind. Samsett mynd

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að ekki hafi komið til tals að banna próf í tölvum vegna aukinnar notkunar á gervigreind. Enn sem komið er reiði skólinn sig að mestu á siðferðiskennd nemenda.

Á laugardag greindi mbl.is frá því að í Tækni­há­skóla Dan­merk­ur (DTU), sem er meðal fremstu tækni­há­skóla heims, verði næstu loka­próf skól­ans tek­in skriflega. Ákvörðunin var tek­in vegna áhyggna skól­ans á notk­un nem­enda á gervi­greind í próf­um.

Jón Atli segir gervigreindina ekki vera vandamál er kemur að prófum í skólunum.

Meira en tveir þriðju prófa eru tekin í tölvum skólans í gegnum forritið Inspera. Forritið lokar á öll önnur forrit og vefsíður í tölvunum. Þá er afgangur prófanna skrifleg. 

„Síðan erum við með einhver heimapróf, en heimaprófin eru þá svipuð og ritgerðir hvað þetta varðar. Það verður bara að trúa því að fólk uppfylli allar kröfur háskólans, bæði frá tæknilegu og siðferðislegu sjónarhorni.“

Jón Atli segir að háskólinn sé því ekki kominn á sama stað og DTU að banna próf í tölvum. 

Brýna fyrir fólki að geta heimilda

Þá var einnig greint frá því í síðustu viku að gervi­greind­in eða spjall­mennið á net­inu, Chat­G­PT, hafi lært íslensku. 

Spurður hvort háskólinn hafi gert einhverjar ráðstafanir varðandi ritstuld eða annað slíkt í ritgerðarskrifum segir Jón Atli að verið sé að skoða málið. 

„Við brýnum fyrir fólki að um notkun gervigreindar í skólastarfi gilda sömu reglur og um notkun allra annarra heimilda og aðstoðar. Það þarf að geta uppruna, svo og nota tilvitnanir og heimildir samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Ég held að þetta byrji þarna, að brýna fyrir fólki.“

Mikið af villum sem slæðast með

Jón Atli segir mikilvægt að muna að þó að gervigreind geti verið gott hjálpartæki þá sé enn mikið um villur og annað slíkt. 

„Fólk verður að treysta á sig sjálft í heimildanotkun og ef það ætlar að nota þessar upplýsingar hrátt þá er verið að brjóta almennar siðareglur. Og líka að taka gríðarlega áhættu vegna þess að þessi forrit eru nú ekki fullkomnari en svo að það eru mjög mikið af villum sem slæðast með. Því brýnum við það fyrir okkar nemendum að hafa það sem sannara reynist og vanda sig,“ segir hann. 

„Ég skil vel að fólk vilji prófa þetta. Þetta getur mögulega verið hjálpartæki en það er mjög takmarkað og það verður náttúrulega tekið á því ef fólk er að nota svona og það kemst upp. Það getur haft alvarlegar afleiðingar,“ segir rektorinn að lokum. 

mbl.is