Segja Vöku afvegaleiða umræðuna

Háskóli Íslands - HÍ - menntun - aðalbygging - Reykjavík
Háskóli Íslands - HÍ - menntun - aðalbygging - Reykjavík Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Forsvarsfólk Röskvu, samtaka félagshyggjufólks í Háskóla Íslands, þvertekur fyrir ásakanir á hendur samtökunum um vanrækslu í bílastæðamálum. Andri Már Tómasson, sviðsráðsforseti heilbrigðisvísindasviðs í stúdentaráði HÍ, segir í samtali við mbl.is að Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, sé að keyra umræðuna um gjaldtöku á bílastæðum Háskóla Íslands langt út af veginum í pólitískum tilgangi.

Greint var frá því í gær að Vökuliðar hafi lagt gervisektarmiða á alla bíla sem lagðir voru við Háskólans í gærmorgun. Var þetta gert til að gagnrýna Röskvu, enda slagorðin „Röskva rukkar þig“ skrifuð í stóru letri framan á miðana.

Ekkert nýtt af nálinni

Andri Már segir að fyrstu áætlanir um gjaldskyldu nái aftur til ársins 2013, áður en Röskva tók við meirihluta í Stúdentaráði. Hann segir Röskvu hafi gagnrýnt framgang Háskólans nú í þessum málum.

Andri Már Tómasson, sviðsráðsforseti Heilbrigðisvísindasviðs
Andri Már Tómasson, sviðsráðsforseti Heilbrigðisvísindasviðs Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að forseti stúdentaráðs og forseti sviðsráðs hugvísindasviðs, bæði í umboði meirihluta Röskvu, hafi farið á fund rektors til þess að tryggja að gjaldskylda yrði ekki sett á bílastæði við Háskólann núna í haust. Þar hafi verið samþykkt að ekki yrði lögð gjaldskylda fyrr en mótvægisaðgerðir fyrir stúdenta liggi fyrir.

„Mótvægisaðgerðirnar sem við beittum okkur fyrir allan tímann er U-passinn sem er lággjalda árskort í almenningssamgöngur, og við erum þá aðallega að hugsa um strætó. Þetta er mál sem við erum búin að vera að vinna í mörg ár. Stúdentaráð, með Röskvu í meirihluta, hefur verið að berjast fyrir þessu sem og að tryggðar verði lausnir fyrir þau sem þurfa að koma á bíl í skólann, til að mynda fjölskyldufólk.“

Hann segir að ef til þess komi að HÍ setji gjaldskyldu á bílastæðin þá verði þetta ein af mótvægisaðgerðunum en alls ekki sú eina sem Röskva hafi þrýst á HÍ að útfæra.

„Þessi fundur með rektor er ekki eini vettvangur þar sem við höfum beitt okkur í þessu máli. Í byrjun seinustu haustannar kom frétt um það að Landspítalinn ætlaði að leggja á gjaldskyldu við Hringbraut,“ segir hann. „Við sættum okkur ekki við það.“

Þá hafi hann og forseti stúdentaráðs í samráði við nemendafélög á heilbrigðivísindasviði þrýst á forseta sviðsins og rektor um að koma því á framfæri til Landspítalans að fallist yrði á að undantekningar yrðu gerðar fyrir stúdenta fram til vorannar 2024.

Segir Vöku fara með rangfærslur

Fulltrúar Vöku hafa ásakað Röskvu um að taka sér beina afstöðu með gjaldtöku á bílastæðum við skólann. Er það vegna þess að meirihlutastjórn Röskvu hafi fellt tillögu sem lögð var fram af fulltrúum Vöku í stúdentaráði sem snerist um að fordæma gjaldtöku við bílastæði.

„Þetta er ákveðin rangfærsla hjá þeim,“ segir Andri Már sem telur að Vaka skilji eftir mikilvægan kafla í sögunni. Hann greinir frá því að á sama fundi og að tillaga Vöku um gjaldtökur hafi verið felld hafði þegar verið búið að samþykkja tillögu um málið.

Hann segir að stúdentaráðsliði Röskvu hafi skrifað tillögu þar sem ítrekuð var núverandi stefna stúdentaráðs um það að ekki yrði lögð gjaldskylda á bílastæði Háskóla Íslands nema að mótvægisaðferðir yrðu fyrir stúdenta.

„Það voru sextán stúdentaráðsliðar sem voru samþykkir þessari tillögu og einn sat hjá, og ég vil minna á að Vaka er með tvo fulltrúa í stúdentaráði. Þannig augljóslega sáu þau ekkert að þessari tillögu.“

Í framhaldi af því hafi Vökuliðar beðið um að þeirra tillaga, sem barst seint inn á fundinn, yrði tekin fyrir, en tillögunni var vísað frá, en þó ekki hafnað, á þeim grundvelli að nýbúið var að samþykkja tillögu sama efnis.

Á sektarstrimlunum sem Vaka hefur dreift á bíla stendur að …
Á sektarstrimlunum sem Vaka hefur dreift á bíla stendur að umrædd „sekt“ sé yfir hundrað þúsund krónur á ári. Ljósmynd/Aðsend

Segir áhyggjur stúdenta mjög skiljanlegar

„Auðvitað skiljum við að fólk hefur áhyggjur af þessu,“ segir hann. „Háskólinn er staðsettur hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem að almenningssamgöngur mættu auðvitað vera betri og staðan er bara sú að mikið af fólki þarf að treysta á bíl til að framkvæma sínar daglegu athafnir, sérstaklega fólk í efri byggðum.“

Andri segir Röskvu hafa gagnrýnt vinnubrögð háskólans. Upplýsingagjöf og samráð við stúdentahópinn hafi verið ábótavant en stúdentaráð hafi þó tryggt upplýsingaflæði með þeim gögnum sem legið hafi fyrir á hverjum tíma. Þetta hafi verið rætt mörgum sinnum á ýmsum vettvöngum.

„Mér finnst mjög athyglisvert að þau hafi mjög hentuglega orðið að þessu máli núna, viku fyrir kosningar.“

„Vökuliðar sátu alla sömu fundi og við og hafa allar sömu upplýsingar undir höndum og ættu því að vita að það er ekkert búið að ákveða í þessum málum annað en að háskólinn sé að skoða þetta“ segir hann. „Þau eru að slengja fram einhverjum tölum, og þetta er allt tilbúningur, einhver ,hundrað þúsund kall á ári‘.“ bætir hann við að lokum og vísar þar í þá „sektina“ sem skrifuð var á sektarstrimla Vöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert