Starlink sést í auknum mæli frá Íslandi

Gervihnattaþyrpingin er sögð líkjast lest þegar hún svífur yfir himininn.
Gervihnattaþyrpingin er sögð líkjast lest þegar hún svífur yfir himininn. Ljósmynd/Aðsend

Gervihnettir á vegum Starlink eru farnir að sjást í síauknum mæli frá Íslandi. Þannig má sjá ljósrákir á næturhimninum sem eru í raun fjöldi lítilla gervihnatta fyrir Starlink. Verkefnið er á vegum bandaríska fyrirtækisins SpaceX, sem er í eigu auðjöfursins Elons Musks, og verkefnið er til þess að koma á fót netþjónustu víða um heiminn.

mbl.is barst meðal annars ábending um áberandi ljósrákir klukkan fjögur aðfaranótt sunnudags, en þar var á ferð gervihnattaþyrping á vegum Starlink. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins segir að þyrpingin hafi fyrst sést frá Íslandi seinasta vor.

„Það eru bara komnir nokkrir [gervihnettir] núna á pólbraut en þegar yfir lýkur eiga að vera mörg þúsund gervitungl á braut um jörðina, ekki bara frá SpaceX heldur líka frá öðrum fyrirtækjum.“

Truflar rannsóknir

Sævar segir að þegar búið verði að skjóta hnöttunum á loft líti þeir út eins og lest á himni. „Þetta kemur til með að trufla rannsóknir og allt þetta kemur til með að hafa áhrif á ásýnd himinsins.“

Hann segir að þyrpingarnar hafi vakið afar neikvæðar tilfinningar, einkum hjá stjörnufræðingum þar sem þær trufla rannsóknir.

Tilraunir hafi verið gerðar til að minnka ljósmengunina frá gervihnöttunum en án mikils árangurs. „Sjónaukar í dag eru orðnir svo rosalega næmir að þetta kemur alltaf til með að hafa áhrif.“

Sævar segir að eftir nokkur ár „gætum [við] verið að horfa upp á tugþúsundir gervihnatta á braut um jörðina, sem koma til með að hafa áhrif á sýnileika himinsins sérstaklega þegar sól er nýsest,“ en hann bendir á að gervihnettirnir séu mest sýnilegir í kringum sólsetur og sólarupprás.

„Við megum búast við að sjá þetta í síauknum mæli á næstu árum, því miður.“

Fólk á Cape Canaveral, þann 27. febrúar, fylgdist með brottför …
Fólk á Cape Canaveral, þann 27. febrúar, fylgdist með brottför eldflauga sem innihéldu nýja útgáfu af gervihnetti Starlink um borð. AFP

Netsambandið dýru verði keypt

Það er ekki bara SpaceX sem hefur áform um að skjóta fleiri gervitunglum í loftið. Fyrirtæki eins og Amazon og OneWeb eru með svipuð verkefni á döfinni og áætlanir eru jafnvel uppi um að kínverskum gervitunglum verði skotið í loftið á næstu árum.

„Í öllum tilvikum eiga þessar þyrpingar að fara á loft til þess að tryggja netsamband um allan heim. Til þess þarf fólk að kaupa sér einhvern móttakara sem kosta einhverjar tíu þúsund upp í hundrað þúsund [krónur],“ segir Sævar.

„Það kemur mörgum á óvart að maður sé svona neikvæður út í þetta,“ bætir hann við en Sævar vill meina að allir þeir sem hafa áhuga á að horfa upp í himininn, bæði atvinnu- og áhugafólk, verði fyrir neikvæðum áhrifum þessara gervitungla.

„Tilgangur er fyrst og síðast að koma á netsambandi en það er bara dálítið of dýru verði keypt. Því miður er enginn stór þrýstihópur sem berst gegn þessu og fyrirtækin munu vinna þarna yfirburðasigur,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert