Yfir 500 farþegar fastir á Seyðisfirði

Yfir 500 farþegar á um það bil 80 bílum eru …
Yfir 500 farþegar á um það bil 80 bílum eru fastir á Seyðisfirði en Fjarðarheiði er lokuð vegna óveðurs. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Til Seyðisfjarðar komu í morgun með Norrænu yfir 500 farþegar á um það bil 80 bílum með það fyrir augum að ferðast um landið næstu daga.

Fólkið er þó fast á Seyðisfirði en Fjarðarheiði er lokuð vegna óveðurs. Jens Olsen Hilmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Egilsstöðum segir í samtali við mbl.is að það standi til að reyna að koma þeim yfir með fylgdarakstri.

Með tvo plóga yfir heiðina

„Við leggjum af stað frá Egilsstöðum klukkan fimm síðdegis í dag og förum með tvo plóga yfir Fjarðarheiði og ryðjum eins vel og við getum á leiðinni á Seyðisfjörð. Svo tökum við bílana yfir í nokkrum hollum þannig að um 20 bílar verða fyrir aftan hvorn plóginn fyrir sig og hugmyndin er að reyna að ná þeim yfir í þremur til fjórum hollum,“ segir Jens.

Jens á von á því að aðgerðinni verði lokið um áttaleytið í kvöld ef vel tekst til.

„Það er kolvitlaust veður á Fjarðarheiðinni og mjög blint á fjórum til fimm erfiðum stöðum á leiðinni. Þetta er eini möguleikinn til að koma fólkinu yfir í dag að því að við teljum.

Fjarðarheiði er lokuð og verður lokuð á meðan á aðgerðunum stendur,“ segir hann.

Jens segir aðra fjallvegi vera opna í nágrenninu og að það hafi verið opið norður í allan dag.

„Það lokast í kvöld auðvitað, fljótlega eftir að við hættum að þjónusta.“

Í góðu yfirlæti

Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði, segir í samtalið við mbl.is, fólkið vera í góðu yfirlæti í skipinu og í ferjuhúsinu.

„Við erum með móttökusal sem tekur þrjú- til fjögurhundruð manns. Það eru einhverjir sem eru á húsbílum sem ætla að fara og stinga sér í samband við rafmagn og svoleiðis. Það fer ekkert illa um fólkið,“ segir Rúnar.

„Við erum að vonast til þess að þeir sem þurfa að komast í burtu komist á eftir í fylgd Vegagerðarinnar. Annars er það bara í fyrramálið,“ segir Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert