Veðrið í mars hefur verið óvenjulegt á marga kanta og kuldi verið með mesta móti.
Trausti Jónsson veðurfræðingur segir á bloggi sínu Hungurdiskum að meðalhiti í Reykjavík fyrstu 20 daga mánaðarins hafi verið -3,0 stig, -3,7 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og -4,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Þetta er langkaldasta marsbyrjun aldarinnar í Reykjavík, sú kaldasta síðan 1995. Á Akureyri er meðalhiti þessa daga -5,3 stig, -4,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -5,6 stigum neðan meðaltals síðustu tíu ára.
Afar þurrt hefur verið um landið sunnan- og vestanvert, en úrkoma í Reykjavík hefur aðeins mælst 1,7 mm og hefur aðeins tvisvar verið minni, árin 1962 og 1937.
Sólskinsstundir eru 149,3 í Reykjavík það sem af er mánuði og hafa aldrei mælst jafnmargar eða fleiri sömu daga. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 55,6 og er það í ríflegu meðallagi.