Byssumaðurinn í fjögurra vikna gæsluvarðhald

Skemmtistaðurinn Dubliner.
Skemmtistaðurinn Dubliner. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maðurinn sem er grunaður um að hafa hleypt af skoti á skemmtistaðnum Dubliner í síðustu viku hefur nú verið úrskurðaður í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald sem mun gilda til og með 18. apríl. Maðurinn hafði nú þegar setið viku í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn 14. mars. 

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn greinir frá þessu í samtali við mbl.is en hann leiðir jafnframt rannsókn málsins. 

Almannahagsmunir að veði

Grímur staðfestir þar að auki að gæsluvarðahaldið hafi verið framlengt vegna almannahagsmuna en ekki á grundvelli rannsóknarhagsmuna eins og gert var í síðustu viku þegar að gæsluvarðhaldið var framlengt frá 17. mars til dagsins í dag. 

„Það er þannig með svona mál að við miðum við þessa grein í lögum og gerum kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli almennahagsmuna,“ segir Grímur spurður hvort það stafi ógn frá manninum gagnvart almenningi.

Að sögn Gríms miðar rannsóknin vel áfram en að yfirheyrslur standi enn yfir. 

mbl.is