Farþegi sem lést var í hvíldarrými og ekki í belti

Suðurlandsvegur.
Suðurlandsvegur.

65 ára karlmaður sem var farþegi í vörubifreið og lést eftir að hún fauk á hliðina á Suðurlandsvegi á síðasta ári og út af veginum var ekki spenntur í öryggisbelti. Hann sat heldur ekki í farþegasæti bifreiðarinnar, heldur í hvíldarrými fyrir aftan framsætin.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Nefndin telur mögulegt að farþeginn hefði lifað slysið af ef hann hefði setið í farþegasæti og verið spenntur í öryggisbelti.

„Farþegum er ætlað að sitja í farþegasætum, en ekki í hvíldarrými vörubifreiða. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri vegalengdir. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein helsta orsök banaslysa í umferðinni,“ segir í skýrslunni.

Mikil vindhviða

Bifreiðinni var ekið austur Suðurlandsveg þegar mikil vindhviða eða vinstrengur feykti festivagni bifreiðarinnar og velti vagnlestinni. Myrkur var og allhvass vindur en vegurinn var hálkulaus.

Um 1,7 km austan við brú yfir ána Brunná, missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni. Hann sagði við skýrslutöku að skyndilega hefði komið vindhviða á bifreiðina með miklum hvelli, með þeim afleiðingum að bifreiðin hefði lyfst upp og oltið á hægri hliðina.

Gekk 2 km að næsta bæ

„Að sögn ökumanns var hann dágóða stund í ökutækinu að hlúa að hinum slasaða. Hann fann ekki farsíma þeirra, þurfti að brjóta sér leið út um þaklúgu ökutækisins til þess að sækja aðstoð og átti í örðugleikum með að komast upp á veginn vegna vinds. Gekk ökumaðurinn síðan um 2 km að næsta bæ í aftakaveðri,“ segir í skýrslunni.

Þegar viðbragðsaðilar voru að störfum á slysstað var veðurofsinn svo mikill að rúður brotnuðu í tveimur ökutækjum á þeirra vegum.

Hugði ekki nægilega að veðurviðvörun

Fram kemur í skýrslunni að ökumaðurinn hefði ekki hugað nægjanlega að veðurviðvörun sem var í gildi á svæðinu og að hann hefði vanmetið hættu vegna létts farms festivagnsins í miklum vindi.

Einnig segir í skýrslunni að framsetning vindaspár á svæðinu í veðurfréttum RÚV hefði verið misvísandi og að veðuraðstæður hefðu sennilega verið verri en spár gáfu til kynna.

Í tillögum Rannsóknarnefndar í öryggisátt kemur fram:

  • Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru öryggisáætlanir mikilvægt verkfæri til að sporna gegn slysum. Beinir nefndin þeirri tillögu til rekstraraðila vörubifreiðarinnar að framkvæma áhættumat og öryggisáætlun fyrir starfsemi fyrirtækisins.
  • Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til veghaldara að taka til skoðunar hvort tilefni sé til að setja upp veðurstöð í grennd við slysstað.
  • Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að útbúa fræðsluefni fyrir ökumenn um notkun veðurviðvarana, veðurspáa og annarra veðurgagna.
  • Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til RÚV að yfirfara verklag við gerð veðurkorta.
mbl.is