Mannanafnanefnd hafnar „afbökun“ á Jóni

Erindið barst nefndinni í síðasta mánuði.
Erindið barst nefndinni í síðasta mánuði.

Mannanafnanefnd neitar að samþykkja Ójón sem nýtt eiginnafn í mannanafnaskrá.

Kvað nefndin upp úrskurð sinn um þetta í gær, eftir að henni hafði borist erindi þessa efnis þann 22. febrúar.

Í úrskurðinum er tekið fram að til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfi öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Afbökun á rótgrónu nafni

Segir svo í úrskurðinum:

„Eiginnafnið Ójón (kk.) uppfyllir skilyrði nr. eitt, þrjú og fjögur hér að framan. Það tekur íslenskri eignarfallsendingu, Ójóns, er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Hér reynir aftur á móti á skilyrði númer tvö. Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þar segir einnig að skilyrðinu sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra.

Nefndin lítur svo á að eiginnafnið Ójón sé afbökun á hinu rótgróna eiginnafni Jón og því ekki hægt að samþykkja það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert