Nýjar mælingar sýna meira landris

Öskjuvatn í vetrarríki hálendisins.
Öskjuvatn í vetrarríki hálendisins. mbl.is/Árni Sæberg

Landið við eldstöðina Öskju hefur risið um 53-54 sentimetra, þar sem þenslan í jarðskorpunni mælist mest, frá því landris tók fyrst að mælast þar í ágúst árið 2021.

Þetta sýna nýjustu mælingar Veðurstofunnar.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, segir að landið rísi nú álíka hratt og áður.

„Það gæti verið að hægja eitthvað á þessu, en það er of snemmt að fullyrða um það,“ segir Benedikt.

Landris við Ólafsgíga, nærri Öskju, mælt í millimetrum. Benedikt segir …
Landris við Ólafsgíga, nærri Öskju, mælt í millimetrum. Benedikt segir að nú sé eins og tímaraðirnar, þ.e. gröfin, séu að jafna sig eftir það tímabil þegar svo virtist sem hægst hefði á risinu. Graf/Veðurstofan

Ljóst að landrisið heldur áfram

Síðast þegar rætt var við Benedikt, fyrir um tíu dögum, leit út fyrir að hægt hefði á risinu. Sagði hann þó ekki öruggt að svo væri í raun.

Síðan hafa bæst við gögn í formi nýrra mælipunkta, sem sýna fram á áframhaldandi og meira landris.

Segir Benedikt nú að ef horft sé á nýjustu punktana þá sé eins og tímaraðirnar, þ.e. gröfin, séu að jafna sig eftir það tímabil þegar svo virtist sem hægst hefði á risinu.

„En ég myndi vilja sjá nokkrar vikur í viðbót af gögnum áður en ég fullyrði að það sé engin breyting,“ segir Benedikt og bætir við að landrisið virðist vera að detta í sama farið aftur.

Landris við Ólafsgíga nærri Öskju. Skýr breyting sést á mælingunum …
Landris við Ólafsgíga nærri Öskju. Skýr breyting sést á mælingunum um mitt ár 2021. Graf/Veðurstofan

Um 55 sentimetra landris

Í Morgunblaðinu 13. mars sagði að heildarlandrisið hefði þá mælst 70 sentimetrar. Segir Benedikt að það hafi reynst ofmat í útreikningum.

Út frá mælingum megi álykta að landrisið í miðjupunkti þess, að minnsta kosti að sinni, sé í kringum 55 sentimetrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert