Skrifuðu undir þrjá kjarasamninga

Frá undirritun kjarasamninga Rafiðnaðarsambands Íslands og VM við Landsvirkjun.
Frá undirritun kjarasamninga Rafiðnaðarsambands Íslands og VM við Landsvirkjun. Ljósmynd/Aðsend

Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) og Rafiðnaðarsamband Íslands (RSÍ) skrifuðu undir þrjá kjarasamninga í dag. Bæði félögin skrifuðu sameiginlega undir samninga við Landsvirkjun og Norðurorku en RSÍ skrifaði einnig undir kjarasamning við Rarik fyrir hönd félagsfólks síns.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Húsi fagfélaganna.

Hlakka til viðræðna á næsta ári

Jafnframt kemur fram að samningarnir fari nú til kynningar og kosningar hjá félagsfólki félaganna. 

„Það er mikið ánægjuefni að tekist hafi að semja við fyrirtækin enda nauðsynlegt að félagsfólk okkar í orkugeiranum fái kjarabætur líkt og félagsfólk okkar á almennum vinnumarkaði hefur fengið,“ kemur fram í tilkynningunni.

Þá er einnig tekið fram að starfsfólk Fagfélaganna vilji þakka samninganefndum félaganna fyrir vel unnin störf og að tilhlökkun sé til staðar fyrir vinnu á nýjum kjarasamningum á næsta ári.

mbl.is