Þessi sigruðu á Íslensku tónlistarverðlaununum

Íslensku tónlistarverðlaunin fóru fram í kvöld.
Íslensku tónlistarverðlaunin fóru fram í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Íslensku tónlistarverðlaunin fóru fram í kvöld með pompi og prakt en fjöldinn allur af tónlistarfólki komu fram á hátíðinni í kvöld. Alls voru 22 verðlaun veitt á hátíðinni en sigurvegaranna í hverjum flokki er hægt að sjá hér fyrir neðan.

Una Torfadóttir, Jónas Ásgeir Ásgeirsson, Stórsveit Reykjavíkur, Friðrik Dór, Russian.girls og Hildigunnur Einarsdóttir mezzosópran héldu uppi stuðinu á hátíðinni með flutning sínum en veislustjórn var í höndum þeirra Selmu Björnsdóttur söngkonu og rapparans og leiklistarnemans Kristins Óla Haraldssonar.

Flytjendur og söngvarar ársins

Flytjendur ársins voru alls fjórir en fyrir djasstónlist hlaut Stórsveit Reykjavíkur verðlaun, fyrir sígilda og samtímatónlist hlaut Jónas Ásgeir Ásgeirsson verðlaun, fyrir popp-, rokk-, hipp hopp og raftónlist hlaut Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir verðlaun og fyrir aðra tónlist hlaut Magnús Jóhann verðlaun.

Fyrir  söng ársins hlaut Rebekka Blöndal verðlaun fyrir Djasstónlist, Una Torfadóttir fyrir popp-, rokk-, hipp hopp og raftónlist og Hildigunnur Einarsdóttir fyrir sígilda og samtímatónlist.

Lög og tónverk ársins voru eftirfarandi:

Djasstónlist: The Moon and the Sky. Höfundur: Marína Ósk.

Sígild og samtímatónlist: Guðspjall Maríu (The Gospel of Mary). Höfundur: Hugi Guðmundsson. Texti: Niels Brunse og Nila Parly.

Popp-, rokk-, hipp hopp- og raftónlist: Bleikur og blár. Lag og texti: Friðrik Dór Jónsson og Pálmi Ragnar Ásgeirsson.

Önnur tónlist: The world is between us. Lag og texti: Árný Margrét.

Hljómplötur ársins: 

Sígild og samtímatónlist: Fikta eftir Jónas Ásgeir Ásgeirsson.

Kvikmynda- og leikhústónlist: The Essex Serpent eftir Herdísi Stefánsdóttur og Dustin O'Halloran.

Djasstónlist: Another Time eftir ASA Trio og Jóel Pálsson

Popp-, rokk-, hipp hopp- og raftónlist: Ungfrú Ísland eftir Kvikindi

Önnur tónlist: Fossora eftir Björk

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir er bjartasta vonin

Verðlaun fyrir upptökustjórn hlaut Björk Guðmundsdóttir fyrir hljómplötuna Fossora. ErkiTíð 2022 var valinn tónlistarviðburður ársins. Máni M. Sigfússon hlaut verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins en hann leikstýrði tónlistarmyndbandi við lagið Drift með Daniel Wohl.

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir, söngkona og hljómsveitarstjóri, var þá valin bjartasta vonin á hátíðinni. Ragnheiður er 22 ára, stundar nú meistaranám í söng við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi og jafnframt því nám í hljómsveitarstjórn við Malko - akademíuna í Kaupmannahöfn.

Sumir muna kannski eftir Ragnheiði eftir að hún hélt tónleika á síðustu Óperudögum þar sem hún stjórnaði eigin hljómsveit en var jafnframt í einsöngshlutverkinu og frumflutti þar m.a. þrjú ný tónverk sem samin voru sérstaklega fyrir hana.

Magnús í Trúbrot fékk heiðursverðlaun

Magnús Jón Kjartansson hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna þetta árið. Magnús hefur komið víða fyrir og spilað á hljóðfæri um árabil en hann fæddist 6. júlí 1951 í Keflavík og spilaði fjórtán ára á trompet með Hljómum í Stapanum og Austurbæjabíó.

Magnús stofnaði hljómsveitina Júdas með Finnboga bróður sínum og tveimur öðrum og naut hljómsveitin mikilla vinsælda. Hann gekk í Trúbrot árið 1970, nokkru áður en hljómsveitin góðkunna sendi frá sér plötuna Undir áhrifum.

Næst var stórvirkið Lifun og samdi Magnús hið þekkta lag To Be Grateful sem kom út á þeirri plötu. Hann gerði sólóplötuna Clockworking Cosmic Spirits árið 1973. Meðal hljómsveita sem Magnús hefur starfað með má nefna Brunaliðið, Hauka, Brimkló, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar, Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, Sléttuúlfana og Axel O og Co.

Magnús var formaður Félags tónskálda og textahöfunda í 14 ár og framkvæmdastjóri félagsins í 10 ár. Á sama tíma gegndi hann stöðu formanns STEFs. Þá hefur hann verið stjórnarmaður í Samtóni og Útón, og fleiri félögum tengdum íslenskri tónlist og útbreiðslu hennar. Magnús var gerður að heiðursfélaga FTT árið 2011.

Jöfn kynjahlutföll í dómnefnd

Jöfn kynjahlutföll eru í akademíu fjögurra dómnefnda Íslensku tónlistarverðlaunanna. Dómnefndirnar samanstanda af þrettán konum og þrettán körlum. Tveir karlar eru formenn og tvær konur eru formenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert