Vilja hafa byssumann áfram í haldi

Dubliner
Dubliner mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerir kröfu um gæsluvarðhald verði framlengt yfir manni sem er grunaður um að hafa hleypt af skoti inni á Dubliners í miðborg Reykja­vík­ur 12. mars á grundvelli almannahagsmuna, en gæsluvarðhald yfir honum rennur út í dag.

Að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns í miðlægri rannsóknardeild verður gerð krafa um að gæsluvarðhaldi yfir manninum verði framlengt um fjórar vikur. 

Síðast var gæsluvarðhaldi yfir hinum grunaða framlengt fyrir helgi, eða 17. mars síðastliðinn, til 22. mars en þá var gerð krafa um framlengingu á grundvelli rannsóknarhagsmuna. 

Aðspurður hvort rannsókn hafi leitt til ástæðu til að halda að almannahagsmunir séu verndaðir með því að halda manninum í áframhaldandi gæsluvarðhaldi svarar Grímur játandi.  

Hann segir rannsókninni miða vel áfram en að yfirheyrslur standi enn yfir. 

Grímur kveðst ekki geta tjáð sig um skotvopnið sem fannst nálægt skemmtistaðnum og að ekki sé enn staðfest hvort um sé að ræða skotvopnið sem var notað í árásinni, þótt gert sé ráð fyrir að svo sé. Hann vildi ekki tjá sig um hvers slags skotvopn var að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert