Börn fari beint í skóla eftir sumarfrí

Árelía segir um tilraunaverkefni að ræða og ekki liggi fyrir …
Árelía segir um tilraunaverkefni að ræða og ekki liggi fyrir í hvaða borgarhluta það hefst. Samsett mynd

Útlit er fyrir að farið verði af stað með það tilraunaverkefni í einhverjum borgarhlutum í ágúst að börn sem eiga að hefja skólagöngu í haust, fari beint inn í skólana eftir sumarfrí í stað þess að fara aftur í leikskólann, líkt og mörg hver gera.

Um er að ræða samstarf á milli frístundar, leik- og grunnskóla og yrði úrræðið í formi frístundar en líka hugsað sem kynning á umhverfi skólans, sem myndi standa yfir í tvær til þrjár vikur, áður en hefðbundin skólaganga hefst. Þetta segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður skóla- og frístundaráðs.

Þessi hugmynd gengur ekki jafn langt og sú tillaga að Sjálfstæðisflokksins að koma á fót fimm ára deildum grunnskóla í þeim hverfum sem leikskólavandinn er hvað mestur. En Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kynnti á fundi borgarstjórnar á þriðjudag, fjórar tillögur sem miða að því að leysa leikskólavandann.

Um er að ræða bráðaaðgerðir og eru hinar tillögurnar heimgreiðslur til foreldra, styrking dagforeldrakerfisins og frekara samstarf við sjálfstætt starfandi leikskóla um fjölgun plássa.

Tillögunum var vísað áfram til skóla- og frístundaráðs.

Leysir ekki vanda að færa til 5 ára börn

Árelía segist fagna öllum tillögunum og að þær verði skoðaðar með opnum hug, en hugmynd um fimm ára deildir hugnast henni síst. Það leysi engan vanda að færa fimm ára börn frá einum stað yfir á annan nema bæta mönnun og fá til starfa fleiri leikskólakennara,

Það að elstu börnin snúi ekki aftur í leikskólana eftir sumarfrí gerir það hins vegar að verkum að það losnar fyrr um leikskólaplássin en ella. Það er þó ekki eini tilgangurinn, en að sögn Árelíu er hugmyndin unnin með þarfir barnanna í huga og faglegt mat haft að leiðarljósi.

„Að börn fari fimm ára inn í skóla er sú tillaga sem að mínu mati er hvað síst, því við erum með leikskólakerfi sem þarfnast faglegrar starfsemi og það er alveg sama hvort hún er inni í skólum eða leikskólum, við þurfum alltaf að manna það,“ segir Árelía í samtali við mbl.is.

Aðeins um tilraun að ræða

„Við erum hins vegar að vinna með tillögur að tilraunaverkefni í ágúst, kannski ekki um alla borgina, en á einhverjum stöðum að við bjóðum upp á að börn fari skólana eftir að þau ljúka sumarfríi á leikskóla,“ segir hún jafnframt. Mikilvægt sé þó að skoða málið heildstætt og taka lítil skref í einu.

Faglegt mat liggi fyrir um að það sé góður kostur fyrir börn sem eru að fara í skóla að kynnast aðeins skólanum áður og átta sig á hvernig umhverfið lítur út.

„Við erum ekki að fara að gera þetta yfir allt borgarkerfið í einu, heldur er þetta tilraun,“ ítrekar hún.

„Það er svo mikilvægt að átta sig á hvað borgarkerfið er gríðarlega stórt. Við erum með 68 leikskóla og 17 sjálfstætt starfandi, þannig við tökum engar svona ákvarðanir nema vera búin að byggja rosalega vel undir það faglega. Þess vegna förum við af stað í einu litlu skrefi.“

„Fyrir þau er þetta svolítið svekkjandi“

Árelía bendir á að það geti verið súrt fyrir börn sem útskrifast úr leikskóla í byrjun sumars að mæta aftur á leikskólann eftir sumarfrí í byrjun ágúst, áður en þau hefja skólagöngu í lok ágúst.

„Fyrir þau er þetta svolítið svekkjandi. Þannig við erum að koma til móts við þarfir þeirra og meta það þannig faglega að það sé skynsamlegt, en við byrjum ekki einn, tveir og bingó því það er ekki hægt. Allt svona þarf að undirbúa rosalega vel og meta svo árangurinn af.“

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um í hvaða borgarhluta tilraunaverkefnið hefst en þar verður horft til ýmissa þátta.

„Við þurfum alltaf að horfa á mönnunina. Börn eru ekki vörur. Við þurfum að hafa faglegt starf í kringum þau og það þarf samstarf frístundar, leikskóla og grunnskóla til að búa til svona verkefni.“

Skýrist betur með dagforeldra í næstu viku

Árelía segir í raun verið að vinna með allar tillögur Sjálfstæðisflokksins, nema nema fimm ára deildir í grunnskóla. Tilraunaverkefni um að börnin fari fyrr inn í skólana er þó af svipuðum meiði.

„Þetta með dagforeldrakerfið er í vinnslu og hefur verið í vinnslu í vetur, þar sem er verið að ljúka þessari vinnu og við gerum ráð fyrir að það verði skýrara í næstu viku,“ segir Árelía.

„Það liggur fyrir pólitísk ákvörðun um að við viljum hefja það til vegs og virðingar og við viljum auglýsa eftir aðilum. Þetta er bara spurning um hvernig samningurinn út, hverjar upphæðirnar eru og slíkt,“ útskýrir hún.

Greiða mestan hluta af rekstrarkostnaði

„Hvað varðar sjálfstætt starfandi leikskóla þá höfum við verið að styrkja þá eins og við getum. Við erum að ganga að nýju til samninga við þau. Reykjavík greiðir mestan hluta af rekstarkostnaði sjálfstætt starfandi leikskóla og skóla þannig við erum í góðu samstarfi við þá góðu aðila,“ segir Árelía.

Verið sé að reyna að laga ákveðna hnökra sem birtast aðallega í því að innritunarkerfi borgarinnar og sjálfstætt starfandi leikskóla tala ekki saman.

„Við erum að fara yfir samninga beggja vegna borð til að stuðla að eins þægilegri samvinnu og hægt er.“

Í samtali við mbl.is í síðustu viku sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að hugsanlega þyrfti að hnykkja á forgangsákveðum varðandi reykvísk börn inn í sjálfstætt starfandi leikskóla. Benti hann á að þrátt fyrir að færri reykvísk börn hefðu komist inn á sjálfstætt starfandi leikskóla haustið 2022 en 2021 þrátt fyrir að plássum hefði fjölgað.

„Við viljum gera samningana þannig að það sé forgangur fyrir reykvísk börn en að sjálfsögðu er eðlilegt að þegar búið er að bjóða í þau pláss hjá okkur, að okkar samstarfaðilar bjóði öðrum til að fylla upp í,“ segir Árelía.

Heimgreiðslur enn til skoðunar

Varðandi tillögu um foreldrastyrk eða heimgreiðslur, segir Árelía hugmyndina hafa verið rædda í borgarstjórn í byrjun febrúar og henni vísað til borgarráðs til frekari vinnslu. Málið sé því enn í skoðun.

Tillaga Sjálfstæðismanna gengur út greiddar verði 200 þúsund krónur á mánuði til foreldra sem kjósa að eða þurfa að vera heima með börn sín að fæðingarorlofi loknu, frá 12 mánaða aldri til tveggja ára.

mbl.is