„Fólk stekkur bara út á morgun“

Þórunn Reynisdóttir er forstjóri Úrval Útsýn.
Þórunn Reynisdóttir er forstjóri Úrval Útsýn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðahegðun Íslendinga hefur breyst töluvert eftir Covid-faraldurinn. Fólk er nú óhræddara við að stökkva út með nánast engum fyrirvara, þá sérstaklega á sólarströnd yfir vetrarmánuðina. Þá eru Íslendingar að fara í fleiri og fjölbreyttari utanlandsferðir en þeir gerðu fyrir faraldurinn.

Þetta segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval Útsýn, í samtali við mbl.is.

„Eftirspurnin er breytt eftir Covid. Það sem kannski helst er breytt er, til dæmis yfir vetrarmánuðina, þá er fólk að stökkva með mjög stuttum fyrirvara. Þar erum við að sjá mikla breytingu frá því fyrir Covid. Fólk stekkur bara út á morgun. Þetta er stærsta breytingin sem við höfum séð eftir Covid. Við sáum þetta aðeins í fyrra en í miklu minna mæli,“ segir Þórunn.

„Áður var þetta þannig að fólk var að skipuleggja sig meira yfir vetrarmánuðina, núna er það meira til í að fara á morgun,“ bætir hún við. Eftirspurnin geti þó líka farið eftir veðri og vindum.

AFP/Desiree Martin

Fleiri fara til fjarlægari landa

Hún segir eftirspurn eftir sólarferðum yfir vetrarmánuðina dreifast á áfangastaðina sem í boði eru; Tenerife, Kanarí, Alicante og Benidorm. „Þetta dreifist vítt og breitt.“

Hægur stígandi hefur verið í fjölbreytni ferða eftir Covid, að sögn Þórunnar. „Fjölbreytileikinn er kannski ekki kominn alveg á fullt, en ég held að það muni hægt og rólega koma.“

Fólk sé þó að fara í fleiri ferðir en áður. „Það er stigvaxandi. Fólk er að fara í sólina, það er að fara í borgarferð og skíði. Það er líka mikill vöxtur í sérferðum til fjarlægari landa.“

Hún segir ferðahegðun fólks þó vissulega mismunandi. Það sé alltaf ákveðinn hluti viðskiptavina sem skipuleggi sig fram í tímann.

„Það er mikil aukning í því að stökkva núna og svo er það þetta hefðbundna að fólk er að velja sér áfangastaði í tíma, stórfjölskyldurnar, það er sígilt og hefur ekkert breyst.“

Tenerife er vinsæll áfangastaður hjá Íslendingum um þessar mundir.
Tenerife er vinsæll áfangastaður hjá Íslendingum um þessar mundir. AFP/Desiree Martin

Ekki bíða of lengi í kuldanum

Mikil eftirspurn er eftir ferðum í sumar og hún mælir með að fólk bóki tímanlega til að fá þær dagsetningar og gistingar sem það vill á háannatíma. „Stærri gistingar fara fljótt, sérstaklega fjölskyldugistingar þær seljast mjög snemma.“

Hvað páskana varðar þá eru þeir að seljast upp, að sögn Þórunnar. Eitthvað er þó enn til.

„Það er enn hægt að stökkva til Benidorm og Alicante og eitthvað til Tene og Kanarí, en þessi beinu flug okkar eru að verða uppseld. Ekki bíða of lengi í kuldanum,“ segir Þórunn kímin. Hún tekur þó fram að hægt sé að bóka flug og gistingu nánast hvar sem er í heiminum í gegnum Úrval Útsýn, enda séu þau í samstarfi við flest öll flugfélög heims.

Fólk bókar fyrr og meiri áhugi á sól 

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir mikla eftirspurn eftir ferðum bæði til, frá og um Ísland og ljóst sé að fólk sé að bóka sínar ferðir fyrr en áður. Íslendingar séu, líkt og alltaf, áhugasamir um sólríka staði og áhuginn heldur meiri en í fyrra.

„Við höfum aukið sætaframboðið til fjölda sólríkra áfangastaða, til dæmis Barcelona, Rómar, Mílanó og Nice og framboðið er áfram mikið til Tenerife og Alicante. Þessir áfangastaðir eru allir vinsælir hjá Íslendingum en einnig hefur sala verið góð til nýrra áfangastaða sem við hefjum flug til í vor, til að mynda Tel Aviv og Krít,“ segir Guðni, en þetta á bæði við um skipulagðar pakkaferðir og flug eingöngu.

Enn er hægt að komast til Benidorm um páskana en …
Enn er hægt að komast til Benidorm um páskana en þá þarf að hafa hraðar hendur. AFP/Jose Jordan
mbl.is