Óvarleg meðferð eldfæra orsakaði brunann

Eldurinn hafði læst sig í útihús.
Eldurinn hafði læst sig í útihús. mbl.is/Arnþór

„Það var hópur af nemendum frá okkur með kennurum í fjöruferð á þessu svæði og það virðist vera að farið hafi verið óvarlega með einhverskonar eldfæri,“ segir Guðríður Eldey Arnardóttir, skólameistari Menntaskólans í Kópavogi, í samtali við mbl.is.

Tvö hús sluppu naum­lega í sinu­brun­an­um sem kom upp í Hafnar­f­irði í dag vestan við álverið í Straumsvík. Fjár­hús og hlaða urðu eldinum að bráð auk þess sem bif­reið skemmd­ist. Þá sluppu tvö hús naum­lega. Eldurinn breiddist talsvert hratt út en mjög þurrt er á svæðinu.

Allir í áfalli

Guðríður Eldey segir að fólk átti sig ekki á því hvað er búið að vera þurrt og að það ætli sér auðvitað enginn að svona fari. Hún segir alla í áfalli sem tengjast málinu.

„Þarna var verið að leita fanga í náttúrunni að hráefni til eldamennsku og það virðist vera sem einn nemendanna hafi farið út fyrir ramma kennslustundarinnar með þessum afleiðingum,“ segir Guðríður en um er að ræða ungmenni sem er í algjöru áfalli að sögn skólameistara.

Slökkviliðsmenn reyna að hemja eldinn í dag.
Slökkviliðsmenn reyna að hemja eldinn í dag. mbl.is/Arnþór

„Verðum að vona að þetta fari vel“

Hún segir það liggja fyrir hvað gerðist en að lögregla rannsaki auðvitað málið.

„Við erum að hlúa að okkar fólki en mörgum er mjög brugðið. Við verðum að vona að þetta fari vel.

Þegar svona kemur upp þá er það vanalega vegna einhvers konar slyss eða óhapps og það var ekkert öðruvísi í þessu tilfelli,“ segir Guðríður.

Lögreglan vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu þegar eftir því var leitað og sömu sögu er að segja af slökkviliðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina