Segja hungursneyð í Úkraínu hafa verið hópmorð

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hákon Pálsson

Þingsályktunartillaga Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að hungursneyðin í Úkraínu á árunum 1932 til 1933 hafi verið hópmorð var samþykkt á Alþingi í dag samhljóða. Þeir 48 þingmenn sem mættir voru á Alþingi greiddu atkvæði með tillögunni og voru það þingmenn úr öllum flokkum sem samþykktu tillöguna.

Hungursneyðin í Úkraínu á árunum 1932 til 1933, sem oft er kennd við Holodomor, var af völdum alræðisstjórnar Stalíns og dró milljónir Úkraínumanna til dauða. Rússar hafa þó alla tíð neitað því að um hópmorð hafi verið að ræða. Með samþykkt tillögunnar á Alþingi í dag bætist Ísland í hóp landa sem brugðist hafa við kalli Úkraínu og lýst því yfir að Holodomor hafi verið hópmorð. Á meðal annarra ríkja sem gert hafa slíkt hið sama eru Bandaríkin, Þýskaland, Írland og Kanada. 

Diljá segir það táknrænt að Alþingi hafi samþykkt tillöguna, nú þegar 90 ár eru liðin frá Holodomor, í skugga stríðsins í Úkraínu.

„Samþykkt tillögunnar sendir skýr skilaboð um þessa hörmulegu atburði í mannkynssögunni og vekjum á þeim athygli til að reyna að koma í veg fyrir að þeir endurtaki sig. Og sendum skýr skilaboð til Úkraínumanna sem berjast nú enn á ný gegn gegn ofríki og stríðsglæpum þjóðar sem hefur áður beitt þjóðina slíku ofbeldi,“ er haft eftir Diljá í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert