Skattkerfisbreytingar munu ekki bitna á launafólki

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Samsett mynd

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir þær skattkerfisbreytingar sem kynntar verði í næstu fjármálaáætlun muni ekki bitna á launafólki. Eins og áður hefur verið boðað verði dregið úr ívilnunum til vistvænna bíla þannig allir taki þátt í fjármögnun vegakerfisins.

Þetta kom fram í svari Bjarna á Alþingi í dag við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaussonar þingmanns Miðflokksins um hvort að ráðherra ætlaði að bregðast við verðbólgu með skattahækkunum eins og forsætisráðherra hafi meðal annars gefið í skyn.

Rafmagnsbílar taki þátt í fjármögnun vegakerfisins

„Þeir sem keyra frítt um göturnar á rafmagnsbílum munu þurfa að fara að taka þátt í að fjármagna vegakerfið,“ sagði Bjarni en Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) hefur meðal annars kallað eftir því að svokölluðu kílómetragjaldi verði komið á fót.

„Mér finnst þetta bara sanngjarnt þar sem við höfum verið með miklar ívilnanir sem við munum draga til baka,“ sagði Bjarni og bætti við að aðrir tekjustofnar verði skoðaðir og kannað hvort möguleiki sé á að sækja frekari tekjur. Þá sé eitt meginverkefni ríkissjóðs að draga úr skuldasöfnuninni en nú sé verið að taka lán á hærri vöxtum en oft undanfarin ár.

Álögur á umferð bitni á öllum

„Stutta svarið hjá fjármálaráðherra var já, það verður skoðað að hækka skatta, og þannig reynt á að ná tökum á ríkisfjármálunum með því að taka meira frá almenningi,“ sagði Sigmundur og bætti við að álögur á umferð bitni á öllum almenningi og spurði hvort ekki stæði til að spara nein staðar.

Bjarni sagðist verða fremstur ráðherra að tala fyrir auknum sparnaði og að tækifærin væru út um allt. Hann benti á að nú þegar hefði verið ráðist í umfangsmikla stafvæðingu og hægt væri að ganga enn lengra í þeim málum. Þá hefðu ráðuneyti og stofnanir verið sameinaðar og yrði haldið áfram á þessari braut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert