Vill flytja íslenska sendiráðið frá Úganda

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.

Gísli Ólafsson þingmaður Pírata hvetur utanríkisráðherra Íslands, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, til að endurskoða þróunarsamstarf við Úganda eftir að ströng lög gegn samkynhneigð voru samþykkt á þingi þar í landi.

Gísli stingur upp á því í tísti að flytja sendiráð Íslands í Kampala, höfuðborg Úganda, til annars Afríkulands. 

Ísland er með sendiráð í Úganda og Malaví og brátt mun opna nýtt sendiráð í Síerra Leóne.

Ýmislegt hægt að gera til að beita þrýstingi

Í samtali við mbl.is segir Gísli ýmislegt hægt að gera til að beita ríkisstjórn Úganda þrýstingi.

„Það er hægt að gera ýmislegt bara með yfirlýsingum og öðru. Það er hægt að kalla sendiherra heim, það er hægt að loka sendiráðum, það er hægt að gera ýmislegt ef fólk fer algjörlega gagnvart því sem við teljum vera mannréttindi.“

Hann bætir við að eins ætti að vera litið á réttindi hinsegin fólks þegar kemur að jafnrétti eins og annarra.

„Hvað ef við værum að tala um konur og þeirra réttindi?“ spyr hann.

Kveðst Gísli hafa óskað eftir að utanríkismálanefnd taki málið fyrir. Sjálfur er hann aðeins áheyrnarfulltrúi í nefndinni en tekur fram að nefndin hafi tekið vel í uppástungu hans og hann búist því við að málið verði tekið fyrir.

Gísli kveðst ekki vita hvort málið muni hafa afleiðingar fyrir samstarf Íslands og Úganda en segist hafa orðið þess vís að utanríkisráðuneytið sé með málið til skoðunar. Hann býst því við að ráðuneytið muni bregðast við með einhverjum hætti, þó svo hann viti ekki með hvaða hætti.

„Fólk vill skoða þetta. Kannski ekki slíta samstarfi en alla vega þrýsta á að eitthvað sé gert.“

Snýst ekki um að þröngva eigin gildum upp á aðrar þjóðir

Gísli segir einnig mögulegt að forseti landsins beiti neitunarvaldi sínu og skrifi ekki undir lögin sem þingið í Úganda samþykkti. Forseti Úganda, Yoweri Museveni, hefur aftur á móti lýst stuðningi við lögin og hefur gagnrýnt vesturlönd fyrir að reyna þröngva eigin gildum og hugsjónum upp á aðrar þjóðir.

Spurður hvað honum finnist um slíka gagnrýni segir Gísli málið einfaldlega snúast að mannréttindum sem séu varin af mannréttindasáttmálanum, sem Ísland hefur aðild að.

„Við erum ekki að þröngva neinu upp á fólk heldur viljum að fólk fái að vera eins fjölbreytt og það vill vera. Það er hluti af því sem við berjumst fyrir alls staðar, ekki bara í Úganda, heldur hefur Ísland talað fyrir réttindum hinsegin fólks víða um heim“.

Hann minnir á að Ísland hafi áður beitt sér gegn mannréttindabrotum erlendra stjórnvalda og því sé ekkert til fyrirstöðu að gera það aftur. Hann vísar meðal annars til opinberrar afstöðu utanríkisráðherra gegn mannréttindabrotum á konum í Íran, en Ísland ásamt Þýskalandi kallaði til fundar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári vegna ástandsins þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert