Flaug á annað hundrað metra og hafnaði á bíl

Gaskúturinn skaust vel á annað hundrað metra og hafnaði nærri …
Gaskúturinn skaust vel á annað hundrað metra og hafnaði nærri gatnamótum Lyngáss og Stóráss. Kort/Já.is

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út í Garðabæ eft­ir að hár hvell­ur heyrðist þar á fimmta tím­an­um síðdeg­is.

Gaskútur hafði þá sprungið á þaki nýbyggingar við Eskiás 3. Hafnaði hann á bíl sem lagt hafði verið vel á annað hundrað metrum frá. 

Tveir gaskútar eru taldir hafa sprungið og eldur var mikill þegar slökkviliðið kom á svæðið. Vel gekk að slökkva eldinn, að sögn varðstjóra slökkviliðs.

Hluti gaskútsins sem hafnaði á bifreiðinni.
Hluti gaskútsins sem hafnaði á bifreiðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tvær sprengingar í gaskútum

„Það urðu sprengingar í tveimur gaskútum í Eskiásnum með stuttu millibili,“ segir Aríel Pétursson íbúi í Melási. 

„Það er verið að leggja lokafrágang á viðgerðir á blokk þarna og þeir nota própanólgas til að sjóða tjörupappa þakið.“

Gaskútur lenti nálægt 

Aríel var á leiðinni í sundlaugina þegar fyrri sprengingin var fyrir u.þ.b. klukkutíma síðan.

„Ég var að fara í sund og þá heyri ég sprengingu og sé svartan reyk liðast þarna upp. Ég skokkaði aðeins nær svæðinu til að sjá hvort einhver væri slasaður,“ segir Aríel.

Þegar það reyndist ekki vera, snéri hann við og hélt áfram á leiðina í sundlaugina.

„Þegar við vorum að labba í burtu þá heyrum við aðra sprengingu og þá kom fljúgandi gaskútur sem lenti ekkert langt frá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert