Ráðast á eldinn um leið og færi gefst

Slökkviliðið að störfum í gær.
Slökkviliðið að störfum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óljóst er hvort slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu takist að slökkva eldinn í dag í sinunni sem hefur logað í hrauninu við Straumsvík síðan í gær. Að sögn Þorsteins Gunnarssonar, varðstjóra í aðgerðastjórn slökkviliðsins, verður staðan tekin á nýjan leik í hádeginu í dag.

„Þá setjum við dróna á loft og fáum betri yfirsýn yfir stöðuna eins og hún er núna,“ segir Þorsteinn.

Hann segir erfitt að eiga við eldinn, enda aðstæður erfiðar í hrauninu. Nokkrir slökkviliðsmenn eru að vakta svæðið og bíða eftir að eldurinn færist nær varnarlínum slökkviliðsins, sem eru Reykjanesbrautin og gamall vegaslóði. Þar verða þeir tilbúnir með tækin sín og ætla að ráðast á hann. Ekki er ljóst hvenær það gerist.

Aðstæður í hrauninu til slökkvistarfs eru erfiðar.
Aðstæður í hrauninu til slökkvistarfs eru erfiðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hann hreyfist mjög hægt þessi eldur og er alveg til friðs eins og er. Við erum að bíða eftir því að hann færi sig á þægilegri staði svo við getum slökkt hann,“ greinir hann frá.

„Við ákváðum seint í gærkvöldi að leyfa þessum eldi að brenna og fylgjast með honum. Það er ekkert í hættu og við erum ekkert stressaðir yfir þessu,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert