Tatjana Latinovic endurkjörin formaður

Aðalfundur félagsins var haldinn í gær.
Aðalfundur félagsins var haldinn í gær. Ljósmynd/Kvennréttindafélag Íslands

Kvennréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til þess að gera kynjafræði að skyldufagi í öllu kennara- og uppeldisfræðanámi háskólastigi. Þá sé mikilvægt að Ísland sé leiðandi afl þegar kemur að því að sýna femíníska ábyrgð hvað varðar mannréttindabrot gagnvart konum á heimsvísu.

Aðalfundur kvenréttindafélags Íslands var haldinn í gær 23. mars í Iðnó. Á fundinum var ný stjórn félagsins kjörin og nýir meðlimir stigu inn í nefndastarf. Tatjana Latinovic var kjörin formaður félagsins á ný en stjórn féagsins sitja nú, auk Tatjönu, Ellen Calmon, Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Ásbjörg Una Björnsdóttir, María Elísabet Hjarðar og Joanna Marcinkowska. Birta Ósk Hönnudóttir, Stefanía Sigurðardóttir og Tanja Teresa Leifsdóttir eru varamenn í stjórn.

Fundurinn sendi frá sér tvær ályktanir sem snúa að kvennréttindum innan sem og utan landsteinanna.

Heimsmarkmiðum fylgt og kynjafræðinám tryggt

Sú fyrri snýr að mikilvægi þess að kynjafræði sé gerð að skyldufagi í öllu kennara- og uppeldisfræðanámi á háskólastigi.

„Menntun í kynja- og jafnréttisfræðum, þar sem áhersla er lögð á kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum er mikilvægt fyrsta skref í þá átt að byggja samfélag án ofbeldis. Undirstaða þess að kenna kynjafræði á öllum skólastigum er að allt kennaramenntað fólk hafi hlotið grunnþjálfun í kynjafræði á háskólastigi,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Síðari ályktunin snýr að því að Ísland sé leiðandi afl þegar kemur að því að berjast gegn mannréttindabrotum gagnvart konum  á alþjóðavettvangi. Til dæmis með því að „vera leiðandi rödd á alþjóðavettvangi þess efnis að öll ríki framfylgi Heimsmarkmiði 5 þannig að konur njóti fullra mannréttinda á heimsvísu, fordæma glæpi gegn konum og minnihlutahópum sem framin eru af stjórnvöldum í Íran, Afganistan og öðrum þjóðríkjum. Taka tillit til viðkvæmrar stöðu kvenna og minnihlutahópa sem leita hælis á Íslandi. Hvetja öll aðildarríki Evrópuráðsins til að fullgilda Istanbúlsamninginn skilyrðislaust og án tafar og innleiða Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna (CEDAW).” 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert