Þurfa ekki að borga milljarða króna

Landsbanki Íslands, Seðlabanki Íslands, Valitor, Reiknistofa bankanna, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja …
Landsbanki Íslands, Seðlabanki Íslands, Valitor, Reiknistofa bankanna, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og íslenska ríkið var sýknað á milljarðakröfu Lífeyrissjóðs bankamanna (LB). Samsett mynd

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. nóvember 2021 þar sem Landsbanki Íslands, Seðlabanki Íslands, Valitor, Reiknistofa bankanna, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og íslenska ríkið voru sýknuð af milljarðakröfu Lífeyrissjóðs bankamanna (LB).

Krafa LB snerist um að breyta ætti samkomulagi á milli aðila málsins frá árinu 1997 þannig að bakábyrgð þeirra stefndu á skuldbindingum hlutfallsdeildar sjóðsins yrði endurvakin.

Sjóðnum yrðu þar með greiddir rúmlega fimm milljarðar króna samanlagt.

Stærsta krafan rúmir fjórir milljarðar

Stærsta krafa LB beindist að Landsbanka Íslands en hún hjlóðaði upp á rúma fjóra milljarða króna.

Lögmaður Landsbankans sagði að bankinn hefði ekki verið aðili að samkomulaginu við LB.

Það hefði verið gamli Landsbankinn og engar skuldbindingar honum tengdar hefðu flust yfir á nýja bankann. Var Landsréttur því sammála en allir stefndu voru sýknaðir.

Málskostnaður milli aðila var látinn falla niður, eins og í héraðsdómi.

mbl.is