Gæslan tvívegis kölluð út að Langjökli

Horft til suðurs yfir Langjökul.
Horft til suðurs yfir Langjökul. mbl.is/RAX

Þyrlu­sveit Land­helg­is­gæsl­unn­ar hefur farið í þrjú útköll í dag, tvö að Langjökli og eitt á Dalvík.

„Það er óvenjulegt, og sem betur fer ekki algengt, að það séu þrjú útköll sama daginn. Það er gott veður og það eru margir á ferli. Oft við slíkar aðstæður eru útköllin mörg, eins og raunin hefur verið í dag,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

Fyrsta útkallið barst laust fyr­ir klukk­an ell­efu í morg­un vegna al­var­legs fjór­hjóla­slyss við Hlöðuvalla­veg und­ir Lang­jökli. Einn var fluttur á slysadeild eftir slysið.

Aftur alvarlegt slys

Um þrjúleytið barst seinna útkallið að jöklinum. 

Þá var um að ræða vélsleðamann sem slasaðist við Jarlhettur, í nágrenni Langjökuls. Þyrlan var komin þangað rétt fyrir klukkan fjögur. Aftur var um að ræða alvarlegt slys.

Á fimmta tímanum var þyrlan aftur kölluð vegna vélsleðaslyss vest­an við Dal­vík. Ekki er talið að vélsleðamaðurinn sé alvarlega slasaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert