Íslenska ríkið sýknað af 27 milljóna bótakröfu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ljósmynd/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af 27,8 milljóna króna bótakröfu fyrrverandi bankastarfsmanns sem sætti rannsókn á árunum 2011 til 2016 vegna gruns um refsiverða háttsemi í starfi sínu.

Maðurinn taldi sig hafa hlotið fjártjón af því að vera gert að sæta réttarstöðu sakbornings í sakamálarannsókn og saksókn í kjölfarið í héraðsdómsmáli og Landsréttarmáli.

Maðurinn, sem var bankastarfsmaður frá 2006 til 2008, var kallaður til skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara árið 2011 vegna rannsóknar á meintri markaðsmisnotkun fyrrum starfsmanna bankans og hafði maðurinn réttarstöðu sakbornings í málinu. Var hann boðaður til skýrslutöku á ný árið 2013.

Ákæra var gefin út árið 2016 og mál höfðað á hendur fyrrverandi bankastjóra, framkvæmdastjóra markaðsviðskipta og þremur fyrrverandi starfsmönnum, þar á meðal manninum. Var þeim gefið að sök að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun, með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum, frá 2007 til 2008.

Sakfelldur í héraðsdómi en sýknaður í Landsrétti

Allir fimm starfsmenn bankans voru sakfelldir í héraðsdómi árið 2018. Maðurinn var hins vegar sýknaður með dómi Landsréttar árið 2019.

Í forsendum héraðsdóms er rakið að of langur tími hafi liðið frá upphafi rannsóknar málsins og þar til ákæra var gefin út. Sá óútskýrði dráttur sem varð á útgáfu ákæru hafi falið í sér brot gegn friði og æru mannsins og honum dæmdar 750 þúsund krónur í miskabætur.

Héraðsdómur taldi hins vegar ósannað að maðurinn hefði orðið fyrir fjártjóni vegna málsins og var íslenska ríkið því sýknað af tæplega 28 milljóna bótakröfu mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert