„Deilur sem koma okkur ekki við“

Vél Niceair tafðist í Kaupmannahöfn vegna deilna utanaðkomandi aðila.
Vél Niceair tafðist í Kaupmannahöfn vegna deilna utanaðkomandi aðila. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Þarna virðist um að vera deilur á milli leigusala, sem koma okkur ekki við og eitthvað sem við ráðum ekki við. Það sem ég veit og er ánægður með er að menn hafa náð saman og vélin er á leiðinni heim,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair í samtali við mbl.is.

Brottför vélar á vegum flugfélagsins, sem átti að fara af stað rétt fyrir 12 á hádegi á íslenskum tíma í dag, tafðist um röskar tvær klukkustundir en Þorvaldur segir vélina komna í loftið og það sé fyrir mestu.

Fréttablaðið greindi fyrst frá.

„Ég hef engar frekari skýringar enda erum við ekki aðilar að málinu. Það er ansi margt sem getur hafa átt sér stað þarna og í sjálfu sér ómögulegt að spekúlera um það.“

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Niceair.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Niceair. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Horfa til Bretlands í haust

Niceair flaug jómfrúarflugið frá Akureyri síðasta sumar og heldur úti áætlunarflugi frá höfuðstað Norðurlands til Kaupmannahafnar og Tenerife.

Þorvaldur Lúðvík segir bókanir líta ágætlega út fyrir sumarið.

„Veturinn var erfiður fyrir alla í flugrekstri held ég en ég tel að Niceair hafi komið því ágætlega til skila að það sé vel hægt og engin fásinna að reka millilandaflug í gegnum Akureyri.“

Þorvaldur Lúðvík segir að Niceair horfi til þess að geta hafið Bretlandsflug í haust en flugfélagið þurfti að aflýsa öllum flugferðum til Bretlands vegna vandræða með leyfismál tengd BREXIT síðasta sumar.

Þá sagði hann málið hafa komið flatt upp á forsvarsmenn Niceair enda hafi ekkert slíkt borið á góma í þriggja mánaða ferli með bresk­um yf­ir­völd­um og ekk­ert borist fé­lag­inu sem benti til að leyfismál væru ekki í lagi.

„Við erum þokkalega vongóð með að þessi leyfismál verði leyst og við getum hafið flug til Bretlands í haust,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

Auðvitað pínlegt

Það hlýtur að vera gremjulegt að verða fyrir seinkun vegna einhvers sem Niceair, sem flugfélag, getur ekki haft neina stjórn á eða áhrif á að neinu leyti?

„Þetta náði tveggja tíma seinkun, það er nú allt og sumt en það er auðvitað pínlegt að lenda í þessu út af ótengdum deilum,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson.

mbl.is