Hugsi yfir nýjum kynningarstjóra RÚV

Þarfnast Ríkisútvarpið sérstaks kynningarstjóra og kynningardeildar? Þessa spyr Sunna Kristín …
Þarfnast Ríkisútvarpið sérstaks kynningarstjóra og kynningardeildar? Þessa spyr Sunna Kristín Hilmarsdóttir á Twitter. Köld tuska í andlit einkarekinna miðla eða þörf staða hjá ríkismiðli? Sunna Kristín og Atli Sigurður, nýi kynningarstjórinn, ræddu við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég elska RÚV, ég vil bara byrja á að segja það, ég neyti efnis þaðan mjög mikið,“ hefur Sunna Kristín Hilmarsdóttir, fyrrverandi blaðamaður, mál sitt en tilefni spjallsins eru ummæli hennar á Twitter þar sem hún spyr hvers vegna Ríkisútvarpið þarfnist samskipta- og kynningarstjóra og enn fremur samskipta- og kynningardeildar. Eins og hún orðar það:

Ekki illa meint og spyr í fullri einlægni: af hverju þarf RÚV samskipta- og kynningarstjóra – og heila samskipta- og kynningardeild sem mér skilst að sé nýlega tekin til starfa? Disclaimer: ég starfaði lengi á einkareknum fjölmiðli og ég vil að farið sé vel með skattfé.

Mér skilst að fjórir sinni þessu og að þetta sé ekki ný deild/viðbót einsog ráða má af fréttum. Ákv. PR-klúður eins weird og það er. Kynningarefni á miðla Rúv ok – tala við aðra fjölmiðla – veit ekki m.það. Rúv á ekki að vera proactive í að kynna sig í öðrum miðlum finnst mér.

Báknið að blása út

Kveðst Sunna Kristín í samtali sínu við mbl.is vera mjög sólgin í fréttir, enda áður blaðamaður um árabil. Hún hlusti mikið á útvarp og horfi á sjónvarp. „Ég hef með árunum orðið gagnrýnni á stofnunina og rekstur hennar, aðallega vegna starfa minna á einkareknum miðli, ég var lengi blaðamaður á Vísi,“ segir hún og bætir því við að hún sé þeirrar skoðunar að vera RÚV á auglýsingamarkaði sé tímaskekkja.

Sunna Kristín kveðst hafa orðið gagnrýnni á störf og rekstur …
Sunna Kristín kveðst hafa orðið gagnrýnni á störf og rekstur RÚV eftir að hún starfaði á einkareknum fjölmiðli. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar ég sá þessa frétt fyrir helgi, um að búið væri að ráða nýjan samskipta- og kynningarstjóra og tekin væri til starfa ný deild, samskipta- og kynningardeild, þá brá mér bara í brún og hugsaði að báknið væri að blása út – ofan á það að RÚV hefði verið með markaðsstjóra, samfélagsmiðlastjóra, kynningarfulltrúa fyrir útvarpsstöðvarnar sínar, alla vega Rás eitt svo ég viti til, og ég skildi ekki alveg hvað var að gerast, hver þörfin væri á þessu,“ heldur Sunna Kristín áfram.

Nokkur umræða spannst um málflutning hennar á Twitter og í umræðuþræðinum segir Sunna:

Er búin að senda öllum vinum mínum á fjölmiðlum hugskeyti um að senda fyrirspurn á samskiptastjórann og spyrja við hvað hann vinnur og af hverju hann þurfi að vera í þessu starfi OG með heila DEILD m.sér. Má hafa útvarpsstjórann í cc á þeirri fyrirspurn.

Köld tuska í andlit

„Ég skrifa nú ekki oft á [Facebook-hópinn] Fjölmiðlanörda, en ég gerði það núna og sagði, eins og það blasti við mér, að þetta væri bara „fokk jú-merki“ í andlitið á einkareknum fjölmiðlum sem eru að berjast í bökkum við að hafa fréttamenn og blaðamenn í vinnu og greiða þeim sómasamleg laun svo þeir fari ekki í kynningarstjóravinnu,“ segir Sunna og hlær að því síðastnefnda enda sjálf tekið að sér slík störf.

„Ég hef nú ekki fengið mikil viðbrögð við þessu, en þó þær upplýsingar að þetta sé í rauninni ekki ný deild heldur nýtt nafn og þessi maður [Atli Sigurður Kristjánsson, nýi samskipta- og kynningarstjórinn] væri að koma í staðinn fyrir markaðsstjóra eða eitthvað slíkt, ég hélt í fyrstu að þetta væri bara hrein viðbót við að vera með markaðsstjóra, samfélagsmiðlastjóra og kynningarfulltrúa fyrir Rás eitt. RÚV hefur náttúrulega ekkert svarað þessu opinberlega, ef verið er að setja einhverja aðila sem þegar vinna hjá stofnuninni undir einhvern hatt og búa til nýjar stöður á móti þá er það náttúrulega bara hreint kynningarklúður, sem er ótrúlegt,“ segir Sunna.

Telur hún að vissulega hljóti að mega spyrja út í rekstur stofnunar sem sé á fjárlögum og hafi milljarða forskot á aðra fjölmiðla. „Ég vona bara að hlutverk þessarar deildar sé ekki að kynna RÚV í öðrum fjölmiðlum eða vera einhvers konar „barrier“ á aðra fjölmiðla þegar þeir þurfa að ná sambandi við útvarpsstjóra, fréttastjóra eða dagskrárstjóra útvarps eða sjónvarps, að þetta sé ekki bara enn einn upplýsingafulltrúinn sem er að fara að „filtera“ fyrirspurnir, það væri bara algjörlega galið að stærsti fjölmiðill landsins væri í einhverjum þannig „bisness“,“ segir Sunna Kristín Hilmarsdóttir að lokum.

Lengi verið kynningarstjóri hjá RÚV

„Okkur hafa ekki borist neinar fyrirspurnir,“ svarar Atli Sigurður Kristjánsson, nýi samskipta- og kynningarstjórinn umræddi, fyrirspurn mbl.is um málið.

„Alveg sjálfsagt að deila því að þótt þetta sé nýtt nafn á litla deild hafa störfin sem nú heyra undir deildina verið unnin á öðrum stöðum og þessi titill sem ég nú ber er ekki nýr af nálinni enda hefur lengi vel verið kynningarstjóri hjá RÚV þótt við hafi bæst samskiptamál,“ segir hann að auki.

Máli sínu til stuðnings sendir Atli mbl.is auglýsinguna um það starf sem hann sótti um og kveður hana svara flestum spurningum um umfang starfsins. Auglýsinguna má sjá hér að neðan hvað varðar helstu verkefni og hæfniskröfur.

„Í þessu teymi er verkefnum sinnt þvert á alla miðla, má þar nefna grafík, myndvinnslu, samfélagsmiðla og viðburði, til dæmis söngvakeppnina. Hluti af teyminu er einnig móttakan og þjónustuborðið sem er hluti af samskiptamálum. Markmiðið er alltaf að miðla efni RÚV sem er okkar allra,“ segir Atli Sigurður.

Helstu verkefni auk hæfniskrafna.
Helstu verkefni auk hæfniskrafna. Skjáskot/timarit.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert