Lóan er komin að kveða burt snjóinn

Lóan er komin í Sangerði og á Eyrarbakka.
Lóan er komin í Sangerði og á Eyrarbakka. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lóan er komin til landsins. Þetta staðfestir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur við mbl.is, en þrjár lóur sáust á Eyrarbakka í gær og ein í Sandgerði.

„Þetta er samkvæmt venju undanfarin ár. Maður á alltaf von á henni í síðustu viku marsmánaðar,“ segir Jóhann.

„Það hafa verið að dúkka upp farfuglar síðustu daga, þrátt fyrir norðanáttina. Hún er eitthvað að gefa eftir og þá fara fuglarnir að streyma til landsins og það má örugglega búast við fleirum í vikunni.“

Hann segir það vissulega áhugavert að lóan sé komin á Suðurlandið þar sem allt sé nú á kafi í snjó.

„Hún er komin að kveða burt snjóinn, en það á að hlána á miðvikudaginn. Það eru allir fuglar að koma fyrr núna, þetta er alltaf að færast framar vegna loftslagshlýnunar. Gæsirnar eru til dæmis farnar að koma tveimur vikum fyrr heldur en í kringum 1990.“

mbl.is