Páll fór út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar

Þórður Snær Júlíusson og Páll Vilhjálmsson.
Þórður Snær Júlíusson og Páll Vilhjálmsson. Samsett mynd

Héraðsdómur telur ekki að þau ummæli sem Páll Vilhjálmsson viðhafði um Þórð Snæ Júlíusson, annan ritstjóra Heimildarinnar, og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamann sama miðils, rúmist innan tjáningarfrelsis hans.

Héraðsdómur Reykjavíkur ómerkti á föstudag ummæli Páls um að Þórður Snær og Arnar Þór hafi átt beina eða óbeina aðild að byrlun Páls Steingrímssonar skipstjóra og stuldi á síma hans í tengslum við umfjöllun um „skæruliðadeild“ Samherja.

Ummælin sem Páll viðhafði á bloggsíðu sinni og héraðsdómur ómerkti eru nánar tiltekið:

„Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson, blaðamenn á Kjarnanum, … eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans.“

„Saksóknari mun gefa út ákæru á hendur blaðamönnum RSK-miðla, líklega í september.“

Gangi of nærri hagsmunum blaðamannanna

Með ummælum sínum er Páll talinn hafa farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar, sem varin er af 1. og 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Ummælin gangi of nærri hagsmunum blaðamannanna til friðhelgi einkalífs, sem varðir eru af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálanum.

Er það jafnframt mat dómsins að hagsmunir Þórðar og Arnars af því að vera lausir undan staðhæfingum Páls séu mun ríkari en hagsmunir Páls af því að fá að bendla þá við refsiverð brot.

Slík staðhæfing verði ekki réttlætt með þeim hætti að hún hafi verið hluti af þjóðfélagsumræðu eða með því að blaðamennirnir hafi sjálfir dregið að sér athygli með athöfnum sínum eða ummælum.

Vegið að starfsheiðri þeirra

Að mati dómsins fólst í ummælunum ólögmæt meingerð gegn æru blaðamannanna auk þess sem vegið var að starfsheiðri þeirra.

Páll hafi auk þess haldið áfram að tjá sig með áþekkum hætti og áður á bloggsvæði sínu, það er um umrædda lögreglurannsókn og ætlaðan hlut þeirra í byrlun Páls Steingrímssonar og afritun og birtingu gagna úr síma hans, að því er virðist gegn betri vitund.

mbl.is