Stjörnur skákheimsins tefla í Hörpu

Alexandra Botez, Vassily Ivanchuk og Aryan Tari verða með á …
Alexandra Botez, Vassily Ivanchuk og Aryan Tari verða með á Reykjavíkurskákmótinu. Samsett mynd

Metþátttaka verður á Reykjavíkurskákmótinu, sem hefst í Hörpu á miðvikudaginn og stendur yfir í tvær vikur, fram til 4. apríl. Á meðal þátttakenda eru 34 stórmeistarar, þar á meðal rússneska skákgoðsögnin Vassily Ivanchuk, sem er stigahæstur á mótinu.

Allnokkrar samfélagsstjörnur skákheimsins mæta á staðinn og þeirra þekktust er kanadíska skákkonan Alexandra Botez sem hefur um 1,3 milljónir fylgjenda á Youtube. Hún státar af 2059 Elo-stigum og verður skákum hennar streymt á netinu.

Næstir í stigaröð keppenda á eftir Ivanchuk eru sænski stórmeistarinn Nils Grandelius og norski stórmeistarinn Aryan Tari sem hefur lengi verið næstbesti skákmaður Norðmanna og Norðurlandanna á eftir heimsmeistaranum, Magnus Carlsen.

Söguleg þátttaka í ár

Söguleg þátttaka er á Reykjavíkurskákmótinu í ár og eru um 400 keppendur skráðir til leiks. Til samanburðar tóku 245 þátt í fyrra og eldra met er frá 2015 þegar 272 skákmenn tóku þátt, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Skáksambandi Íslands.

Keppendurnir eru frá um 47 löndum. Um 85 íslenskir skákmenn taka þátt og eru því nærri 80% keppenda að koma erlendis frá. Þjóðverjar eru fjölmennastir erlendu gestanna en þeir eru um 60 talsins. Þá segir í tilkynningu Skáksambands Íslands að gera megi ráð fyrir að gistinætur sem fylgja mótinu séu um 4.000 talsins.

Keppendur koma meðal annars frá löndum eins og Kasakstan, Singapore, Ástralíu og Sri Lanka. 

Íslendingar áberandi á mótinu

Sex þeirra 34 stórmeistara sem taka þátt í ár eru íslenskir, þar á meðal nýbakaði stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson. Af íslensku stórmeisturunum taka auk Vignis þátt þeir Hjörvar Steinn Grétarsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Jóhann Hjartarson, Guðmundur Kjartansson og Þröstur Þórhallsson, sem og Lenka Ptácníková, stórmeistari kvenna.

Skák er fyrir alla og það endurspeglar aldursmunurinn á yngstu og elstu keppendunum. Elstu keppendur mótsins eru 74 ára (f. 1949) en þeir yngstu eru á sjöunda ári (f. 2016).

Skákskýringar verða alla daga í Hörpu í umsjón okkar sterkustu skákmanna, sem ekki taka þátt. Má þar nefna nafnana og stórmeistarana Helga Ólafsson og Helga Áss Grétarsson. 

Áhorfendur hvattir til að gera sér leið í Hörpuna

Mótið verður formlega sett miðvikudaginn, 29. mars, kl. 15.00 en þá mun Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setja mótið og leika fyrsta leik þess. Mótið er það 37. í sögunni en fyrsta mótið fór fram árið 1964. Áhorfendur eru ávallt velkomnir á skákstað og er aðgangur ókeypis í boði Kviku eignastýringar og Brims. 

Hægt verða að fylgjast með um 50 skákum beint á netinu í hverri umferð á heimasíðu mótsins, www.reykjavikopen.com.

mbl.is