Teikningar sýna nýjan miðbæ á Hvolsvelli

Í nýju miðbæjarskipulagi á Hvolsvelli er gert ráð fyrir lágstemmdum …
Í nýju miðbæjarskipulagi á Hvolsvelli er gert ráð fyrir lágstemmdum og huggulegum byggingum. Tölvuteikning/Hvolsvöllur

Nýr miðbær er í mótun á Hvolsvelli. Gatnagerð er hafin og fjöldi nýrra lóða er í úthlutunarferli. Á svæðinu er gert ráð fyrir blandaðri byggð undir verslun, þjónustu og íbúðarhúsnæði.

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri á Hvolsvelli, segir að loks hafi tekist að ná heildarskipulagi yfir miðbæjarsvæðið.

„Í miðbænum okkar eigum við óskemmda perlu og óplægðan akur, miðað við að þarna hefur ekki verið skipulag í gildi í háa herrans tíð.

Við viljum ná að skapa umhverfi sem verður blanda af verslun og þjónustu og íbúðabyggð til þess að fá líf í miðbæinn okkar. Við sjáum fyrir okkur veitingastaði, kaffihús og einhverja gistingu auk íbúða.“

Engin stórhýsi

Anton Kári segir ekki verða um nein stórhýsi að ræða heldur lágstemmdar og huggulegar byggingar en að ekki sé búið að fastmóta hugmyndir að ákveðnum byggingarstíl.

„Við bjóðum þessar lóðir út sem eina heild einmitt til þess að það verði ákveðin samfella í byggingarstíl og fleiru,“ segir hann.

Hann segist vonast til að fá inn aðila sem er tilbúinn að reisa þessar byggingar og segir þann sem komi þar inn hafa svolítið með það að gera hvernig þetta komi til með að líta út. Hann segir engar formlegar umsóknir hafa borist en mikið um þreifingar.

Festi, eigendur Krónunnar og N1, fékk vilyrði til sex mánaða fyrir sex lóðum sunnan við þjóðveginn.

„Krónan er núna í stjórnsýsluhúsinu og er í raun sprungin. Festi er að hanna og huga að uppbyggingu stórrar Krónuverslunar auk annarrar þjónustu á þessum lóðum og eigum við von á tillögum frá þeim.“

Deiliskipulag miðbæjar á Hvolsvelli.
Deiliskipulag miðbæjar á Hvolsvelli. Skjáskot/hvolsvollur.is

Afrekshugur eftir Nínu Sæmundsson

Anton Kári segir að einnig verði farið í hönnun og uppbyggingu á miðbæjargarðinum.

„Miðbæjargarðurinn er hátíðarsvæðið okkar. Svæði sem hefur verið notað mikið af bæði íbúum og ferðafólki. Þar erum við meðal annars að huga að uppsetningu styttunnar Afrekshugur eftir listakonuna, Nínu Sæmundsson.

Styttan verður sett upp í sumar og er komin til landsins. Hún verður djásnið á miðbæjartúninu,“ segir hann og heldur áfram.

„Þetta er eftirsteypa af styttunni en frumgerðin prýðir innganginn að Waldorf Astoria hótelinu í New York en Nína er úr Fljótshlíðinni.“

Þjóðvegur verður innanbæjarvegur

Talið berst að samgöngum en Anton Kári segir hönnun hafna á breytingum á og við þjóðveginn í gegnum þorpið.

„Við viljum gera þjóðveginn að einskonar innanbæjarvegi með góðum gönguþverunum og góðum göngu- og hjólastígum.

Við erum í samstarfi við Vegagerðina um hönnun hvað það varðar og förum vonandi í fyrstu framkvæmdir þar í sumar.“

Breyting á deiliskipulagi miðbæjar á Hvolsvelli.
Breyting á deiliskipulagi miðbæjar á Hvolsvelli. Skjáskot/hvolsvollur.is

Gríðarleg uppbyggig fram undan

Þá segir sveitarstjórinn talsverða uppbyggingu fram undan í ferðaþjónustu á svæðinu.

„Það eru heljarinnar uppbyggingaráætlanir í tenglsum við Eldfjallamiðstöðina en þar er horft til veitingarekstrar og hótelreksturs og aukinnar uppbyggingar. Þá hefur mikil uppbygging í ferðaþjónustu átt sér stað í dreifbýlinu og frekari uppbyggingaráætlanir eru framundan.

Þar má nefna tvö stór hótel nærri Seljalandsfossi og mikil byggingaráform inni í Fljótshlíð og austur undir Eyjafjöllum sem og á Skógum.“

Anton Kári segir mikinn uppgang hafa átt sér stað á Hvolsvelli á undanförnum árum.

„Sérstaklega frá svona 2014 til 2016 og til dagsins í dag. Íbúum hefur fjölgað gríðarlega. Við vorum lengi vel um 1.700 íbúar en í fyrsta skipti síðasta haust fórum við yfir 2.000 íbúa.

Það hefur verið gríðarleg uppbygging í íbúðarhúsnæði, segir sveitarstjórinn en farið var í tvær gatnagerðir á síðasta ári og er útboð í þriðju gatnagerðina í auglýsingu.

„Allar lóðir fara undir eins.“

Fjölbreytt atvinnulíf

Búa Hvolsvöllur og nærsveitir yfir atvinnulífi sem styður við þessa fyrirhuguðu fólksfjölgun á svæðinu?

„Það er fjölbreytt atvinnulíf á Hvolsvelli og til marks um það eru átta mismunandi aðilar að leigja skrifstofur og skrifstofupláss í stjórnsýsluhúsinu sem allir eru í mismunandi rekstri.

Það er mikið atvinnulíf í kringum verslun og þjónustu sem og ferðaþjónustu en Hvolsvöllur er líka þéttbýlis- og þjónustukjarni fyrir landbúnaðinn og hér eru þrjár búvöruverslanir. Það má segja að landbúnaðurinn sé grunnatvinnustoðin ásamt ferðaþjónustunni.“

Sveitarstjórinn er stórhuga og hlakkar til að fylgja eftir frekari uppbyggingu á svæðinu.

„Það er líf og fjör í þessu og vonandi verður sem mest af þessum fyrirætlunum að veruleika,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri á Hvolsvelli.

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri á Hvolsvelli.
Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri á Hvolsvelli. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert