Þarf ekki að taka norðurljósin úr nafni sínu

Gistiheimilið Grótta Northern Lights er á Seltjarnarnesi.
Gistiheimilið Grótta Northern Lights er á Seltjarnarnesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Gistiheimilið Grótta Northern Lights á Seltjarnarnesi þarf ekki að breyta nafni sínu vegna vörumerkjaskráningar annars aðila fyrir orðmerkið „Northern Light“. 

Landsréttur skar úr um þetta í vikunni.

Sýslumaður hafði lagt lögbann við því að gistiheimilið notaði vörumerkið „Northern Light“ í tengslum við gistiþjónustu. Því var mál höfðað til staðfestingar á lögbanninu.

Fjölmargir kostir fyrir þá sem leita gistingar

Forsaga málsins er sú að árið 2006 fékk einn stefnenda málsins vörumerkjaskráningu fyrir orðmerkið „Northern Light“, meðal annars í flokki fyrir veitinga og gistiþjónustu. Auk þess fékk hann önnur sambærileg orðmerki skráð í sama flokk. 

Northern Light á Íslandi ehf. hefur haft leyfi handhafa vörumerkisins til að nota vörumerkin og rekið gistiþjónustu í Grindavík, meðal annars undir heitunum „Northern Light“ og „Northern Light Inn“.

Það var svo árið 2017 sem stefndi hóf rekstur gistiheimilisins „Grótta Northern Lights“.

Stefnendur málsins héldu því fram að hætta væri á ruglingi. Landréttur féllst ekki á það.

„Benda gögn málsins ekki til sérstakrar hættu á ruglingi milli þeirra tveggja auðkenna sem hér er um deilt heldur fremur til þess að þeim sem leiti að gistiþjónustu undir merkjum norðurljósa mæti fjölmargir kostir,“ segir í dómi Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert