Aðgerðir hófust 10-15 mínútum eftir snjóflóð

Björgunarsveitir hófu aðgerðir um 10-15 mínútum eftir að snjóflóð féll …
Björgunarsveitir hófu aðgerðir um 10-15 mínútum eftir að snjóflóð féll klukkan hálfsjö í morgun. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir voru komnar á snjóflóðasvæðið í Neskaupsstað um 10-15 mínútum eftir að fyrsta flóðið í íbúabyggð féll um klukkan hálf sjö í morgun. Björgunarsveitir hafa unnið að rýmingu frá því í morgun og nokkur hundruð manns komin í félagsheimilið Egilsbúð. 

„Við erum að hefja næsta fasa rýmingar núna. Göturnar eru miserfiðar en það eru snjóruðningstækin stinga í gegnum það fyrir okkur,“ segir Sveinn H. Oddsson Zoega, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita á Austurlandi og félagi í björgunarsveitinni Gerpi í Neskaupstað. 

Hann segir að búið sé að flytja fólk frá svæðum þar sem varnargarðanna nýtur ekki. Nú er verið að flytja þá sem eru næst fjallshlíðinni. Húsin þar eru varin að sögn Sveins. 

Hann segir að notast sé við 6-8 bíla auk tveggja smárúta til að flytja fólk frá heimilum sínum. 

Sveinn segir að hann hafi fengið tilkynningu um hálfsjö í morgun um snjóflóð. 

„Menn voru ansi fljótir af stað eftir útkall. Kannski 10-15 mínútur,“ segir Sveinn.  

mbl.is