Eldurinn kviknaði í skrifstofurými skólans

Slökkviliðið var að störfum í Víkurskóla í nótt.
Slökkviliðið var að störfum í Víkurskóla í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldurinn í Víkurskóla í Grafarvogi í nótt kviknaði í lítilli skrifstofu í skrifstofurými og varð tjónið þar mikið.

Einnig varð tjón í skólanum eftir að úðunarkerfið fór í gang, að sögn Þuríðar Óttarsdóttur, skólastjóra Víkurskóla.

Skólastarf með hefðbundnum hætti

Skólastarf verður þó með hefðbundnum hætti í dag en á mánudögum hefst skólinn þar klukkan 10.

„Það er aðallega stjórnendarýmið sem er verið að þurrka og bókasafnið og félagsmiðstöðin en annars er ástandið betra en það leit út fyrir,“ segir Þuríður og bætir við að símkerfið liggi niðri á meðan verið sé að gera við rafmagnið.

Níundi bekkur skólans tekur þátt í unglingaþingi í Hörpu í dag og því verður einum árgangi færra í húsinu. „Það fer bara vel um okkur,“ segir hún.

„Við starfsfólkið erum bara að æfa okkur fyrir skemmtiatriði fyrir árshátíð nemenda sem verður á miðvikudagskvöldið og ætlum ekki að láta þetta á okkur fá.“

mbl.is