Féllu úr að minnsta kosti þremur giljum

Grófar útlínur snjóflóðanna sem féllu í morgun miðað við upplýsingar …
Grófar útlínur snjóflóðanna sem féllu í morgun miðað við upplýsingar Veðurstofunnar sem liggja fyrir núna. Kort/Veðurstofa Íslands

Snjóflóðin í Neskaupstað í morgun féllu úr að minnsta kosti þremur giljum fyrir ofan byggðina.

Snjóflóð úr Miðstrandarskarði og/eða Klofagili féll skammt innan þéttbýlisins. Þar rann flóðið meðfram leiðigarði og út í sjó, að því er Veðurstofa Íslands greinir frá.

Þá féll snjóflóð úr Nesgili, utarlega í bænum, á nokkur íbúðarhús við göturnar Starmýri og Hrafnsmýri. Fólk sem var statt í þessum húsum bjargaðist án alvarlegra meiðsla.

Snjóflóð úr Bakkagili, sem er næsta gil utan við Nesgil, stöðvaðist skammt ofan byggðarinnar við Gauksmýri.

Frá Neskaupstað.
Frá Neskaupstað. Ljósmynd/Landsbjörg

Íbúðarhús og atvinnuhúsnæði rýmd 

Eftir að flóðin féllu voru mörg hús rýmd undir Nes- og Bakkagiljum, og einnig atvinnuhúsnæði á snjóflóðahættusvæðum innan þéttbýlisins. Í öryggisskyni voru jafnframt öll hús í efstu húsaröðum undir varnargörðum í Neskaupstað rýmd. Það er jafnan gert í alvarlegum snjóflóðahrinum þar sem varnargarðar hafa verið reistir.

Hús voru einnig rýmd á Seyðisfirði en engar fréttir hafa borist af snjóflóðum þaðan.

Minnkandi úrkoma í dag

Spáð er minnkandi úrkomu í dag og norðaustanátt og ætti að vera orðið úrkomulaust í kvöld. Óvíst er á þessu stigi hversu lengi rýmingin verður í gildi.

„Ekki hefur sést til hlíðarinnar milli flóðanna en líklegt er að einhver flóð hafi einnig fallið þar. Stoðvirki hafa verið reist í hluta upptakasvæða í Tröllagiljum og Drangagili, en flóð kunna að hafa fallið í hlíðinni neðan stoðvirkjanna og í giljunum sjálfum þar sem ekki eru stoðvirki,“ segir í tilkynningunni.

„Á næstu dögum verða ummerki snjóflóða í hlíðinni könnuð til þess að afla upplýsinga um snjóflóð sem kunna að hafa fallið ofan varnargarða og kanna aðstæður í upptaksvæðum hlíðarinnar. Einnig verða könnuð ummerki snjóflóðsins sem leiðigarður innan við þéttbýlið beindi til sjávar til þess að athuga hversu hátt það rann upp á garðinn,“ segir þar einnig.

Ljósmynd/Landsbjörg

Fleiri varnarvirki reist á næstu árum

Varnarvirki hafa verið reist í Neskaupstað fyrir byggðina neðan hættulegustu snjóflóðafarvega hlíðarinnar, þ.e. neðan Tröllagilja og Drangagils, og einnig neðan Urðarbotns sem er þar á milli.

Einnig hafa varnarvirki verið hönnuð fyrir byggðina undir Nesgili og Bakkagili, þar sem snjóflóðin féllu nú, og verða þau reist á næstu árum.

Undir Nesgili og Bakkagili stendur byggðin fjær fjallinu en innar í bænum. Þar þurfa því stærri flóð að falla til að skapa hættu í byggðinni heldur en áður en varnarvirki voru reist ofan þeirra svæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert