Floti tundurduflaslæðara væntanlegur til landsins

Skipin munu hafa aðsetur við Skarfabakka meðan á dvöl þeirra …
Skipin munu hafa aðsetur við Skarfabakka meðan á dvöl þeirra stendur. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Floti tundurduflaslæðara á vegum Atlantshafsbandalagsins er væntanlegur til landsins í kvöld. Skipin koma til með að leggjast að bryggju í Reykjavík og hafa aðsetur við Skarfabakka meðan á dvöl þeirra stendur.

Flotinn samanstendur af sex tundurduflaslæðurum frá aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins. Forystuskip flotans er norska skipið HNoMS Nordkapp en hin skipin fimm eru ENS Sakala frá Eistlandi, FGS Rottweil frá Þýskalandi, HNoMS Otra frá Noregi, BNS Bellis frá Belgíu og HNLMS Schiedam frá Hollandi, að því er Landhelgisgæslan greinir frá í tilkynningu. 

Þar segir einnig, að helstu verkefni skipanna felist í leit og eyðingu tundurdufla og sprengja í hafinu sem hætta stafi af. Aðgerðir þess auki þannig öryggi sjófarenda.

Meðan á veru flotans stendur hér á landi koma áhafnir skipanna til með að æfa neðansjávardjúphreinsun á tilgreindum svæðum, þar sem vitað er af gömlum duflum, í samstarfi við liðsmenn séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar.

Tundurduflafloti á vegum Atlantshafsbandalagsins kom síðast hingað til lands árið 2013. Þá fannst tundurdufl í Hvalfirði sem eytt var í samstarfi við séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar. Gert er ráð fyrir að slík leit fari aftur fram í Hvalfirði og víðar að þessu sinni, segir enn fremur. 

Atlantshafsbandalagið rekur tvo flota tundurduflaslæðara. Sá sem kemur hingað til lands sinnir að mestu norðursvæðinu og kallast Standing NATO Mine Countermeasures Group ONE (SNMCMG 1)). Hinn flotinn er Group TWO og starfar sunnar.

mbl.is