Hluti sjúkrahússins verði rýmdur

Frá Neskaupstað.
Frá Neskaupstað. Ljósmynd/Landsbjörg

Um 160 hús í Neskaupstað og Seyðisfirði hafa verið rýmd vegna snjóflóðahættu að sögn Víðis Reynissonar, yf­ir­lög­regluþjóns al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra. Víðir gerir ráð fyrir að eitthvað af sjúkrahúsinu í Neskaupstað verði rýmt.

Í samtali við mbl.is segir Víðir að um 130 hús hafi verið rýmd í Neskaupstað og um 30 á Seyðisfirði. Hann segir að ekki liggi fyrir nákvæmar tölur um fjölda fólks sem þurftu að yfirgefa svæðið vegna snjóflóðahættu.

„Þetta er blanda af iðnaðarhúsnæði, gististöðum og íbúahúsnæði, þannig ég er ekki komin með tölurnar frá Rauða krossinum“ segir Víðir. 

Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson. mbl.is/Ásdís

Margir með skrámur og skurði

Hann segir aðgerðafund viðbragðsaðila hafa gengið vel og að almennt hafi gengið vel til í aðgerðum þótt staðan hafi virðist erfitt í fyrstu. Erfitt sé að þurfa að senda björgunarmenn inn á hættuleg svæði til að rýma þau, en að allir séu að vinna eins öruggt og unnt er. 

„Okkur finnst við vera komin með þetta í ágætis tök, þetta var mjög erfitt í morgun, sérstaklega meðan við biðum eftir fregnum af þeim húsum þar sem fólkið hafði lent í flóðinu.“

Annað flóðanna í morgun féll á fjölbýlishús í Neskaupstað og vöknuðu margir íbúar hússins við að rúður brustu og snjór flæddi inn á heimilin. 

„Sem betur fer gekk það þannig að engin er alvarlega slasaður, en það eru mjög margir úr húsinu sem eru með einhverjar skrámur og skurði, sem þurftu aðhlynningu,“ segir Víðir. Hann segir um 10 manns hafi þurft aðhlynningu á spítala vegna áverka úr flóðinu. 

Ráðstafanir gerðar vegna snjóflóðahættu hjá spítalanum

Spurður hvort rýma þurfi spítalann segir Víðir að ráðstafanir hafi verið gerðar vegna snjóflóðahættu hjá spítalanum, en hann er í nágrenni við svæðið þar sem flóðið féll, 

„Ég geri ráð fyrir að eitthvað af sjúkrahúsinu verði rýmt,“ segir Víðir. 

Hann segir hjúkrunarheimili vera hluta af húsnæði spítalans og því hafi hluti af fólkinu verið flutt. „Fólk á sjúkrahúsinu var flutt hinum megin í húsið og það stóð til að flytja einhverja í gistingu á hótel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert