Rýming gildi út nóttina

Ljósmynd/Landsbjörg

„Það er gert ráð fyrir að þessi rýming standi yfir í nótt nema annað verði ákveðið,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, í samtali við mbl.is. Aðgerðarstjórn fundaði í hádeginu um stöðuna ásamt björgunarsveitum.

Í varúðarskyni er verið að rýma öll hús undir varnargörðunum í Neskaupstað rýmd. Rýmingu er lokið í ytri enda bæjarins. 

„Garðarnir eru taldir alveg í lagi, en engu að síður er ekki vitað með snjómagnið fyrir ofan þá,“ segir Jón Björn og bætir við að snjóruðningur sé hafinn í götunum efst í bænum. 

Íbúar þar eru beðnir að sýna biðlund eftir björgunarsveitarmönnum sem munu aðstoða fólk við að komast í burtu. 

Fjöldarhjálparmiðstöð er opin í Egilsbúð og segir Jón Björn að nóg pláss sé þar fyrir bæjarbúa. Þá hafa sumir leitað til vina og ættingja annars staðar í bænum. 

Hann segir að aðstæður verða metnar en líklegt þykir að rýmingin verði í gildi fram á nótt. 

„Við biðjum fólk að halda kyrru fyrir þar sem það er og sýna aðgát og vera ekki á ferðinni,“ segir Jón Björn. 

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Björgunarsveitir safnast á Egilsstöðum

Jón Björn segir björgunarsveitarmenn vera að safnast saman á Egilsstöðum.

„Við erum ágætlega sett núna,“ segir hann en flóð féll við innkeyrslu bæjarins. 

Íbúar þar eru beðnir að sýna biðlund eftir björgunarsveitarmönnum sem …
Íbúar þar eru beðnir að sýna biðlund eftir björgunarsveitarmönnum sem munu aðstoða fólk við að komast í burtu. Ljósmynd/Landsbjörg

Varðskipið Þór sigl­ir nú til Vopna­fjarðar. Áætlað er að skipið verði mætt um átta leytið í kvöld og mun skipið ferja björg­un­ar­sveitar­fólk frá Vopnafirði inn á Norðfjörð, sem Nes­kaupstaður ligg­ur við. 

Þá eru þrír björg­un­ar­sveit­ar­menn ásamt þrem­ur leit­ar­hund­um á leið með þyrlu Landhelgisgæslunnar í bæinn. 

Yfirvegun íbúa aðdáunarverð

Jón Björn segir yfirvegun íbúa aðdáunarverða.

„Við þekkjum það náttúrulega öll sem búum á Íslandi að við tökumst á við náttúruhamfarir, en auðvitað er beygur í fólki og fólk er órótt. En ég dáist að því hvað fólk sýnir mikla yfirvegun og skynsemi í þessum aðstæðum og bregst vel við því sem við erum að gera.“

Bæjarbúar minnast snjóflóðsins sem féll í Neskaupstað í desember árið 1974 árlega en þá létust tólf manns. 

„Allir þekkja þann atburð sem hér búa og margir sem upplifðu það auðvitað líka,“ segir Jón Björn.

„Núna tökumst við bara á við þetta og tryggjum að allir séu öryggir. Svo sjáum við hvort og hvernig eignir hafa farið. Það er auðvitað fyrst og fremst núna að tryggja líf og limi fólks og koma því í öryggi.“ 

Hann segir flóðin sýna hversu gríðarlega mikilvægt sé að fjórði varnargarðurinn verði byggður í ytri enda bæjarins þar sem flóðið féll í morgun. 

Fyrstu tvö flóðin sem féllu í bænum.
Fyrstu tvö flóðin sem féllu í bænum. Kort/mbl.is
mbl.is