Segir að göngin gætu komið upp í Herjólfsdal

mbl.is/ÓskarPétur

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur fagnar ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um að skipa starfshóp sem ætlað er að legja mat á fýsileika jarðganga milli lands og Vestmannaeyja.

„Við þekkjum Vestmannaeyjaeldstöðvakerfið ekki nægilega vel til að vera með fullyrðingar á einn veg eða annan. Það þarf að vinna þetta miklu betur og skoða þetta verkefni á skynsaman og raunhæfan hátt. Ef það kemur í ljós að þetta er ekkert mál og peninganna virði, þá bara fara menn í það,“ segir Þorvaldur.

Umræðan um jarðgöng til Vestmannaeyja er sannarlega ekki ný af nálinni. „Þetta er gömul hugmynd en mér líst vel á að Sigurður hafi ákveðið að taka þetta skref. Ef það er möguleiki að þetta gangi upp yrði þetta alveg svakaleg búbót fyrir Vestmannaeyinga,“ segir Þorvaldur.

Spurður hvort hann telji það vera peningasóun að skipa starfshóp til að kanna málið neitar Þorvaldur því.

„Mér finnst það mjög skynsamlegt. Ef menn leggja smá vinnu í þetta, gera rannsóknir og svara ákveðnum spurningum. Við eigum ekki að vera með fordóma um þetta,“ segir Þorvaldur.

Hvar gætu göngin komið upp?

„Bara í Herjólfsdalnum. Það yrði þá að færa Þjóðhátíð,“ segir Þorvaldur léttur í bragði en bætir svo við að besta staðsetningin sé vissulega vestan megin á eyjunni.

„Það eru staðir þarna. Miðað við það sem við vitum um eldvirkni í Heimaey, þá er betra að hafa þau vestan megin. Því vestar sem við erum, því öruggari,“ segir Þorvaldur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert