Snjóflóðið ruddist inn í íbúðina

Fjölbýlishúsið sem varð fyrir snjóflóðinu.
Fjölbýlishúsið sem varð fyrir snjóflóðinu. Ljósmynd/Aðsend

Kona sem býr ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum á annarri hæð fjölbýlishúss í Neskaupstað sem varð fyrir snjóflóði í morgun segir hurðina fram á gang hafa sprungið upp og snjóflóðið ruðst inn í íbúðina.

Í samtali við RÚV segist hún hafa hlaupið beint inn í herbergi sem snýr að fjallinu og sótt son sinn þangað inn, sem slapp með skrekkinn. Eftir það reyndi hún að fara inn í hjónaherbergi þar sem dóttir hennar og maðurinn hennar voru en komst ekki inn því hurðin var pikkföst.

Gróf dótturina upp 

„En ég heyri aðeins gráturinn í dóttur minni og maðurinn minn er risinn upp og fer í að grafa hana upp, hún lenti aðeins undir,“ sagði Anna Björg Rúnarsdóttir Fjeldsted við RÚV og hringdi í kjölfarið í Neyðarlínuna.

„Ég, litla og sonur minn sluppum alveg án meiðsla. Maðurinn minn lenti svona verst í því. Hann er undir eftirliti og er svolítið vankaður og dóttir okkar er með svolítið mikið af skrámum en annars bara erum við brött,“ bætti hún við.

Snjóflóðið braut tvo af þremur gluggum íbúðarinnar sem snúa í átt að fjallinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert