Tugir flóttamanna á götunni í vor

Breytingar á útlendingalögum taka væntanlega gildi í apríl. Lagabreytingar sem þar koma til framkvæmda munu fyrst og fremst auka skilvirkni kerfisins að sögn Írisar Kristinsdóttur sviðstjóra verndarsviðs Útlendingastofnunar. Íris er gestur Dagmála í dag og ræðir þar lagabreytingarnar og áhrif þeirra.

Um tvö hundruð flóttamenn eru á Íslandi sem hafa fengið synjun um vernd hér á landi. Þrátt fyrir þá niðurstöðu kveða núgildandi lög á um að fólkið njóti þjónustu sem innifelur húsnæði og framfærslu. Nýju lögin fella þessa þjónustu úr gildi fyrir þennan hóp og segir Íris ljóst að einhverjir tugir verði þá hreinlega á götunni þó svo að öllum sé tryggð bráða heilbrigðisþjónusta. Hún segir erfitt að sjá fyrir hversu margir missi þjónustu því bráðabirgðaákvæði í lögunum taka sérstaklega til barna og fólks í erfiðum aðstæðum.

Fjöldi mála hjá Útlendingastofnun er meiri en nokkru sinni fyrr. Þannig nefnir Íris að þau séu með um 1.700 mál til skoðunar og því til viðbótar telur hún að um tvö hundruð mál séu til meðhöndlunar hjá kærunefnd. Hún segir að þessi fjöldi mála sé fordæmalaus hjá stofnuninni.

Þegar rætt er um skilvirkni í tengslum við útlendingalögin segir hún að verið sé að fella niður fresti og samræma málsmeðferð. Í þættinum ræðir Íris þessi mál í víðu samhengi með tilliti til þeirra breytinga sem eru yfirvofandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert