Andlát: Ólafur Stefán Sigurðsson

Ólafur Stefán Sigurðsson, fyrrverandi sýslumaður í Búðardal og sparisjóðsstjóri í …
Ólafur Stefán Sigurðsson, fyrrverandi sýslumaður í Búðardal og sparisjóðsstjóri í Sparisjóði Kópavogs. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Stefán Sigurðsson, fyrrverandi sýslumaður í Búðardal og sparisjóðsstjóri í Sparisjóði Kópavogs, lést laugardaginn 25. mars síðastliðinn á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 91 ára að aldri.

Ólafur fæddist í Reykjavík 23. mars 1932, elstur fjögurra systkina. Foreldrar hans voru Vilborg Ólafsdóttir, f. 20.6. 1912, d. 16.4. 1991, og Sigurður Þórðarson, f. 18.11. 1911, d. 28.9. 1963. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 og embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1959. Hann öðlaðist hdl-réttindi 1965 og hrl-réttindi 2002.

Ólafur starfaði hjá Verslunarsparisjóðnum hf. 1957-58, var lögfræðingur hjá Viðtækjaverslun Íslands og Innkaupasambandi bóksala 1959-1960 og fulltrúi og aðalfulltrúi hjá Bæjarfógetanum í Kópavogi 1961-72. Hann var héraðsdómari í Kópavogi 1972-85 og meðfram því stundakennari við HÍ 1978-84. Hann sat í stjórn Sparisjóðs Kópavogs 1979-84 og var sparisjóðsstjóri 1984-93. Ólafur gegndi embætti sýslumanns Dalamanna í Búðardal 1993-2002.

Ólafur gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann sat í framtalsnefnd Kópavogs 1966-91, formaður 1970-78, varadómari í Félagsdómi 1980-89 og formaður dómsins 1986. Sat í barnaverndarnefnd Kópavogs 1966-70, formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs 1966-71 og fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi 1971-74, sat í stjórn atvinnueflingarsjóðs Kópavogs 1970-74. Hann var formaður þjóðhátíðarnefndar Kópavogs 1974 og ritari í stjórn Dómarafélags Íslands 1976-84. Ólafur var formaður nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu 1983-91, formaður stjórnar Hjúkrunar- og dvalarheimilisins á Fellsenda í Dölum 1993-2002 og formaður yfirkjörstjórnar í Dalasýslu 1994-2002. Ólafur sat í stjórn Medic Alert á Íslandi 1985-99.

Ólafur hafði mikinn áhuga á garðyrkju og trjárækt og sinnti því áhugamáli sínu í frístundum. Þá var hann virkur í Lionshreyfingunni og félagi í Lionsklúbbi Kópavogs í meira en 50 ár.

Ólafur var kvæntur Maríu Guðrúnu Steingrímsdóttur ljósmóður, f. 6.6. 1927, d. 4.2. 2013. Saman áttu þau fjögur börn og fjölda annarra afkomenda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert