Fjölskyldur gistu um borð í togara

Reynt hefur á hugmyndaflug viðbragðsaðila í Neskaupstað.
Reynt hefur á hugmyndaflug viðbragðsaðila í Neskaupstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reynt hefur á hugmyndaflug viðbragðsaðila að störfum í Neskaupstað þar sem ekki var hlaupið að því að finna gistingu fyrir alla þá sem yfirgefa þurftu heimili sín í gær vegna snjóflóðahættu.

Anna Sigríður Þórðardóttir, hópstjóri viðbragðshóps í sálrænum stuðningi hjá Rauða krossinum, segir alla reiðubúna að leggja hönd á plóg og gekk allt upp á endanum. Sem dæmi um úrræðasemi nefnir hún m.a. að fimm fjölskyldur hafi gist um borð í togara.

„Það eru margir sem að auðvitað gátu verið hjá vinum og vandamönnum og fóru með sína fjölskyldu þangað. Það eru aðrir sem ekki hafa úr neinu að spila, og við vorum svo heppin að það voru laus pláss á heimavistinni.

Það var laust á hótelinu og það voru allir tilbúnir að lyfta til og færa til. Fólk er búið að segja að það hafi dýnur á gólfi. Það eru allir boðnir og búnir að láta þetta ganga upp. En það er auðvitað talsvert utanumhald þegar að það eru 420 manns sem að koma og við þurfum kannski að aðstoða meirihlutann við að komast einhvers staðar í rými. Þá er líka að nota hugmyndaflugið,“ segir Anna Sigríður í samtali við mbl.is.

„Við sendum fimm fjölskyldur með bát út í höfn í gærkvöldi þar sem að þau gistu um borð í togara,“ bætir hún við.

Anna Sigríður Þórðardóttir, hópstjóri viðbragðshóps í sálrænum stuðningi hjá Rauða …
Anna Sigríður Þórðardóttir, hópstjóri viðbragðshóps í sálrænum stuðningi hjá Rauða krossinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aflétting léttir en íbúar viðbúnir að rýma aftur

Fyrr í dag var ákveðið að aflétta rýmingu á hluta húsa í Neskaupstað og á Seyðisfirði sem rýmd voru í gær. Að sögn Önnu Sigríðar hefur afléttingin haft jákvæð áhrif á íbúa. 

„Þá finnur maður að það er að slaka á og veit að það er minni hætta yfirvofandi en það eru samt allir að búa sig undir að það þurfi mögulega að rýma aftur á morgun. Fólk býr líka við ákveðinn kvíða. Það sem við erum að gera hér er að reyna að spotta og hjálpa fólki að skilja eðlilegar tilfinningar í óeðlilegum aðstæðum og [við] leggjum áherslu á að fólk nái að tala, tala saman og tjá sig og fá hreyfingu á að skilja tilfinningarnar sem að fylgja svona áfalli.“

Hún segir sálrænt ástand fólks mismunandi. 

„Við erum með einstaklinga sem að lentu beinlínis beint í flóði. Við erum með einstaklinga sem að eru aðstandendur þeirra sem að lentu í flóði. Og svo erum við með fullorðna einstaklinga sem að búa enn að áfalli síðan að þeir upplifðu flóðið 1974. Þar erum við kannski ekki síst að spotta að geta tekið á þeim tilfinningum sem eru að vakna við þetta flóð sem er að koma núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert