„Gömul sár rifnuðu upp“

Davíð Kristinsson
Davíð Kristinsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Gærdagurinn var þannig að allt fór í kaos. Allt kolófært og enginn gat gert neitt. Við fórum því í rýmingar. Það var flókið og erfitt því maður fann hve fólki fannst það erfitt. Gömul sár rifnuðu upp,“ segir Davíð Kristinsson, björgunarsveitarmaður og starfandi sjúkraflutningamaður á Seyðisfirði. 

Þurfti hann ásamt fjölmörgum öðrum að rýma hús sitt vegna snjóflóðahættu í gær. Eitt snjóflóð féll í á hús á norðurhlið Seyðisfjarðar úr gagnstæðri fjallshlíð við þar sem aurskriðurnar féllu árið 2020. Enginn var í húsinu. 

Hús Davíðs var eitt þeirra sem eyðilagðist í skriðunum. „Nú tekur við sú vinna að takast á við sárin sem ýfðust upp. Sáluhjálpinni var vel sinnt eftir skriðurnar hjá okkur. Einnig þarf að hugsa til Norðfirðinga. Þar eru eldri sár sem á sínum tíma var ekki sinnt,“ segir Davíð og vísar þar til snjóflóðanna á Neskaupstað árið 1974 þegar 12 létu lífið.   

„En þetta verður flókið og þetta verður vont. Það eru mörg sár. Margir hér á Seyðisfirði voru lokaðir inni í húsum sínum og mörgum fannst það vond tilfinning. Við vorum að moka fólk út úr húsum sínum og þetta var bara mjög langur dagur,“ segir Davíð.  

Afar snjóþungt er á Austurlandi og fólk var víða fast …
Afar snjóþungt er á Austurlandi og fólk var víða fast í húsum sínum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ræður illa við flíspeysuáráttu

Davíð eru maður margra hatta. Þannig er hann faðir og eiginmaður, eigandi Hótels Öldu, björgunarsveitarmaður, slökkviliðsmaður og nú síðast sjúkraflutningamaður. „Ég er held ég bara með söfnunaráráttu á flíspeysum. Ég ræð illa við þetta,“ segir Davíð og hlær. 

„Maður er tilbúinn að segja já og í svona litlu samfélagi þá fær maður allt nema gráu flíspeysuna hjá sérsveitinni,“ bætir Davíð kíminn við.

Brenndi kertið í báða enda  

Davíð verður þó alvarlegri í bragði þegar hann minnist gærdagsins og viðurkennir hann fúslega að erfitt sé að eiga við tilfinningar sem hann tengir við náttúruöflin. 

„Ég brenndi kertið í báða enda eftir skriðurnar. Ég brann út. Húsið okkar skemmdist og það er ótrúlega erfitt að missa heimili sitt. Að tapa örygginu og líða ekki 100% öruggur þar á sama tíma og maður er að endurbyggja það,“ segir Davíð. 

Hann segir sterka óþægindatilfinningu hafa gripið um sig þegar snjóflóðin féllu á Neskaupstað á sama tíma og allir voru lokaðir inni á Seyðisfirði.

„Mágur minn og sonur búa á Norðfirði í götunni þar sem snjóflóðið kom. Við náðum ekki í þau í tvær til þrjár mínútur þarna um morguninn. Það leið eins og heil eilífð og var þungt högg andlega,“ segir Davíð.    

Segir hann slík viðbrögð dæmigerð fyrir það hversu hvekktur maður verður við að upplifa náttúruvá í sínu daglega lífi. 

Heimili Davíðs eyðilagðist í aurskriðu sem féll á Seyðisfirði í …
Heimili Davíðs eyðilagðist í aurskriðu sem féll á Seyðisfirði í desember 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef þurft á hjálp að halda eftir og er rólega að koma til baka. Það er afar flókið ferli og ég mæli með því að fólk hugsi sig betur um áður en það klessir á vegg. Því þegar þú klessir á vegg þá er ekki auðvelt að koma til baka. Við Íslendingar og þá sérstaklega við karlmenn erum svo vitlausir og hlustum ekki á sjálfa okkur. Við erum duglegir að segja öðrum að taka því rólega en þegar kemur að okkur erum við sjálfum okkur verstir. Það var enginn duglegri að benda mér á að slaka á en konan mín en ég hlustaði ekki, taldi mig vita betur en ég vissi ekki betur,“ segir Davíð.

Aurskriða hreif með sér húsið Breiðablik og flutti það um …
Aurskriða hreif með sér húsið Breiðablik og flutti það um fimmtíu metra í aurskriðu árið 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vanlíðan vegna baráttu við náttúruhamfarasjóð

Hann segir að einn áhrifaþátt álagsins í kjölfar skriðanna hafi verið fjárhagsáhyggjur. Greiðslur sem náttúruhamfaratryggingar hafi boðið hafi engan vegin dugað til að endurbyggja húsið. Skýrsla sem hann lét verkfræðing gera hafi sýnt mun meira tjón en náttúruhamfaratryggingasjóður mat tjónið á annan hátt.

Eina leiðin til að komast leiðar sinnar er eftir götum …
Eina leiðin til að komast leiðar sinnar er eftir götum bæjarins. Annað er á kafi í snjó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vildum byggja húsið upp aftur. Það var upphafsreitur af því að græða sárin. Svo var ekkert húsnæðisframboð heldur. Þeim hjá sjóðnum hefur eflaust liðið eins og þeir hafi borgað vel og það er enginn sem gerir það að illu hjá sjóðnum að borga ekki fyrir allt. Eftir á að hyggja hefði verið betra ef einhver nefnd á vegum Múlaþings hefði farið í þetta fyrir okkur. Maður er ekki á góðum stað og ekki með fulla orku til að berjast við svona stórt batterí. Það fór því mikil orka og vanlíðan í að berjast við svona stórt batterí. Það var heldur ekki auðvelt fyrir þau sem sátu hinu megin við borðið. Að hlusta á hágrátandi mann sem er búinn að missa húsið sitt. Að halda að eitthvað eðlilegt samtal komi út úr því er borin von,“ segir Davíð. 

Sitja uppi með mikið tap 

Hann segir að eftir á að hyggja hefði líklega verið betra að þiggja bætur og byrja upp á nýtt en það þýði ekkert að vera vitur eftir á. „Án þess að fara eitthvað nákvæmlega í það þá sitjum við uppi með margar milljónir i tap og það eru margir í þeirri stöðu hér á Seyðisfirði. En við eigum þó ennþá húsið okkar og það er eitthvað. En eins og í gær þegar það kemur snjóflóðavá þá verður maður hræddur og við sváfum öll í kjallaranum. Það er skrítin tilfinning. Þó maður treysti húsinu þá treystir maður ekki veðrinu,“ segir Davíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert