Mjólkurlaust í Neskaupstað

Hillur búðarinnar Í Neskaupstað hafa tæmst hratt.
Hillur búðarinnar Í Neskaupstað hafa tæmst hratt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hillur Kjörbúðarinnar í Neskaupstað eru nú hálftómar. Vonast er til þess að vistir komist á áfangastað áður en veður á svæðinu versnar á ný. Verslunarstjóri segir aðra eins örtröð sjaldan hafa sést í Kjörbúðinni. 

„Við erum einmitt að bíða eftir mjólkurbílnum núna. Hann var búinn að skila af sér á Eskifirði og við vonum að þeir hleypi honum í gegn. Við erum alveg orðin mjólkurlaus, síðustu lítrarnir seldust rétt fyrir fjögur í dag,“ segir Klara Jóhanna, verslunarstjóri Kjörbúðarinnar í Neskaupstað.

Þá sé allt brauð búið í búðinni og lítið sé eftir af annarri mjólkurvöru. Eitthvað sé eftir af ávöxtum og grænmeti.

„Ég fékk hringingu að sunnan í dag frá mínum yfirmönnum og sagt að taka pöntun strax og því var komið strax á bíl til þess að reyna að koma til okkar áður en veður versnar aftur,“ segir Klara.

„Þetta var bara eins og Þorláksmessa“ 

Hún segir örtröð ekki myndast oft í búðinni. Dagurinn í dag hafi gengið eins og það væri Þorláksmessa.

„Kannski fimmtán manns að bíða í röð, það gerist ekki oft. [...] Í örugglega fyrstu tvo þrjá tímana eftir að við opnuðum í morgun þá var virkilega löng biðröð,“ segir Klara og bætir því við að langar raðir hafi einnig myndast við sjálfsafgreiðslukassa búðarinnar. Allt hafi þó verið vel fram og fólk mjög skilningsríkt.  

Brauð, álegg og jógúrt hafi klárast að mestu því að útvega þurfti vistir fyrir fjöldahjálparstöðina.

Mikil örtröð myndaðist í Kjörbúðinni í Neskaupstað þegar verslunin opnaði …
Mikil örtröð myndaðist í Kjörbúðinni í Neskaupstað þegar verslunin opnaði í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákveður að vistirnar komist á leiðarenda

Þá vill hún hrósa snjóruðningsmönnum bæjarins fyrir vel unnin störf því bærinn sé orðinn vel ruddur.

„Þeir hafa unnið kraftaverk og fá allt of sjaldan hrós,“ segir Klara.

Spurð hvort hún hafi leitt hugann að því hvað gerist ef vistirnar komist ekki til skila segist Klara ekki hafa íhugað það.

„Við bara ákveðum að við fáum vistirnar,“ segir Klara að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert