Réðst á mann í hjólastól

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur úrskurðað að maður sem réðst á …
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur úrskurðað að maður sem réðst á mann í hjólastól um verslunarmannahelgi í fyrra skuli sæta fjögurra mánaða fangelsisvist. mbl.is/Þorsteinn

Maður sem ákærður var fyrir líkamsárás gegn manni í hjólastól um verslunarmannahelgi á seinasta ári var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í máli sem höfðað var gegn honum. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra.

Maðurinn er sagður hafa gengið í skrokk á fötluðum manni laugardaginn 6. ágúst 2022. Í ákærunni segir að hann hafi tvisvar ýtt í bringu brotaþola, slegið hann utan undir, tekið hann hálstaki með báðum höndum og síðan með hálstakinu lyft honum úr hjólastólnum. Brotaþoli missti því andann í skamma stund og hlaut áverka á hálsi.

Sá ákærði játaði sök sína fyrir dómi en hann hefur átta sinnum sætt viðurlögum vegna afbrota frá árinu 2012. Viðkomandi var ákærður fyrir líkamsárás árið 2017 og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.

Viðkomandi var einnig dæmdur til þess að greiða sekt árið 2019 fyrir vörslu fíkniefna.

Dóminn má finna hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert