Safna fyrir hjóli handa félaga sem lamaðist

Safnað er fyrir sérútbúnu fjallahjóli handa Elís.
Safnað er fyrir sérútbúnu fjallahjóli handa Elís.

Vinir og æfingafélagar hjólreiðamannsins Elísar Huga Dagssonar sem slasaðist alvarlega við keppni í fjallabruni á Úlfarsfelli í ágúst á síðasta ári, hyggjast nú safna áheitum svo hægt verði að kaupa sérútbúið fjallahjól handa Elísi, sem þarf að nota hjólastól eftir slysið.

Svava Berglind, sem stofnaði Facebook-viðburðinn Hjólað fyrir Elís, til að vekja athygli á söfnuninni, segir í samtali við mbl.is að tíu félagar hans úr afrekshópi fjallahjóladeildar Brettafélags Hafnarfjarðar ætli að hjóla í sólarhring fá æfingahjólum í húsi félagsins til að safna áheitum.

Þá segir hún enn fleiri ætla að taka þátt með öðrum hætti, til dæmis með því að mæta og hjóla með þeim hluta tímans eða hlaupa. „Þetta er allt að fæðast,“ segir Svava.

Fram kemur á Facebook-síðunni að sérútbúin fjallahjól af þessu tagi séu mjög dýr, en margt smátt geri eitt stórt.

Slysið varð á bikarmóti í fjallabruni á Úlfarsfelli 27. ágúst síðastliðinn. Fram kom í umfjöllun fjölmiðla að Elís væri einn besti hjólreiðamaður landsins, en hann var á meðal fyrstu Íslendinga sem kepptu í fjallabruni á alþjóðlegu móti síðasta sumar.

Strákarnir byrja að hjóla þann 15. apríl klukkan 14 og ætla að hjóla þar til klukkan 14 daginn eftir.

Hér má nálgast upplýsingar um söfnunina.

Reikningsupplýsingar fyrir þá sem vilja leggja söfnuninni lið:

Reikningsnúmer: 0123-15-098343
Kennitala: 261071-4289

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert