Stormur í nótt og á morgun

Í nótt og á morgun stefnir í austan hvassviðri eða …
Í nótt og á morgun stefnir í austan hvassviðri eða storm með suðurströndinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðáttumikil lægð liggur langt suður í hafi og færir okkur austlæga átt í dag með stöku éljum fyrir austan, en að mestu skýjað og þurrt vestanlands.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Allhvass vindur syðst, en hægari annars staðar. Í kvöld nálgast skil sem fylgja lægðinni og bætir þá í vindinn syðst og byrjar að snjóa þar.

Frost verður víða 0 til 8 stig, en frostlaust suðvestantil yfir daginn.

Hvassast undir Eyjafjöllum

Í nótt og á morgun stefnir í austan hvassviðri eða storm með suðurströndinni þar sem hvassast verður undir Eyjafjöllum og í kringum Öræfi. Með þessu fylgir líklega snjókoma og skafrenningur svo búast má við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Þegar líður á morgundaginn hlýnar í veðri þegar hlýr loftmassi kemur úr suðri mog breytist þá úrkoman yfir í slyddu eða rigningu á sunnanverðu landinu.

Annað kvöld færist síðan úrkomubakki yfir suðaustanvert landið og Austfirði og má búast við talsverðri slyddu eða snjókomu þar fram á fimmtudag.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert