Biðla til fólks að vera ekki á ferðinni

Fjöldi bíla keyra norður frá Fjarðabyggð á meðan vegir eru …
Fjöldi bíla keyra norður frá Fjarðabyggð á meðan vegir eru enn opnir. Myndin tengist ekki fréttinni beint. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekkert ferðaveður er á Suðurlandi og er útlit fyrir að veður taki að versna á Austurlandi þegar líða tekur á daginn. Almannavarnir biðla til fólks að vera ekki á ferðinni að óþörfu.

Gul viðvörun er á Suðurland eins og er. Flestir vegir á Austurlandinu er opnir, en búist er við að þeim verði lokað seinna í dag eða á morgun. Appelsínugul viðvörun tekur gildi á Austurlandi klukkan 19 í kvöld.

Krapaflóð möguleg á Austfjörðum

Í tilkynningu frá aðgerðastjórn á Austurlandi í hádeginu kemur fram að hugsanlegt sé að rýhma þurfi að nýju þau hús sem aflétt var af í gær.

Enn fremur kemur fram að veðurspái geri ráð fyrir að rigning geti fylgt í kjölfar snjókomu og þá hláku og mögulegum krapaflóðum. Unnið er að viðbúnaði með sveitarfélögum vegna hugsanlegra krapaflóða.

Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri almannavarna sagði í samtali við mbl.is að viðbragðsaðilar á svæðinu nýttu tímann í að bjarga verðmætum í Fjarðabyggð í morgun á meðan veður leyfir. Til að mynda hafi verið negldar spýtur fyrir gluggana í fjölbýlishúsinu á Neskaupstað þar sem snjóflóð féll á, til að vernda eigur fólks frá frekari skaða. 

Spurð hvort fólk á svæðinu sé að reyna að forða sér viti hún það ekki nákvæmlega en að hún efist ekki um að margir vilji koma sér í burtu. 

227 bílar hafa farið yfir Fagradal

Að sögn starfsmanns Vegagerðarinnar, hefur fjöldi bíla keyrt norður síðan á miðnætti. Norðfjarðargöng eru opin og Norðfjarðarvegur sömuleiðis eins og er, en Fjarðarheiði lokuð. Hægt er því að keyra frá Neskaupstað og Eskifirði en Seyðfirðingar komast hvorki lönd né strönd á meðan Fjarðarheiði er lokuð. 

Veður á öllu Austurlandi fer versnandi seinna í dag og því ekki ólíklegt að vegum verði aftur lokað, en þeim verður haldið opnum eins lengi og unnt er að sögn starfsmanns Vegagerðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hafa 227 bílar farið yfir Fagradals síðan á miðnætti. Starfsmaður vegagerðarinnar ítrekar hins vegar að ekki sé sérstaklega mælst til þess að fólk sé á ferðinni.

„Ekkert ferðaveður á við í dag“

Hjördís minnir á að vont veður sé nú þegar á Suðurlandinu og biðlar til fólks að vera þar ekki á ferð að óþörfu. „Þessi fína setning, ekkert ferðveður, á við í dag.“

Hún segir almannavarnir einnig hvetja fyrirtæki í ferðaþjónustu til að upplýsa ferðamenn á sínum vegum um stöðuna. „Það myndi einfalda líf björgunarsveitaaðila,“ bætir hún við. 

Allt að 50 ferðamönnum var bjargað úr óveðrinu í kringum Pétursey og Mýrdalsjökul í gærkvöldi og nótt. Voru 30 manns flutt í fjöldahjálparstöð á Vík. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert